Hættu í fótbolta og fimleikum og stofnuðu afrekshóp í hjólreiðum

Afrekshópurinn við æfingar í fjallabrunsbrautinni í Vífilsstaðahlíð veturinn 2021.
Afrekshópurinn við æfingar í fjallabrunsbrautinni í Vífilsstaðahlíð veturinn 2021. Ljósmynd/Sigurður Ólason

Fyrir tveimur árum ákváðu tveir drengir að hætta alfarið í annars vegar fimleikum og frjálsum íþróttum og hins vegar í fótbolta og vildu fara að æfa fjallahjólreiðar allt árið. Farvegurinn fyrir slíkt var ekki alveg þróaður hér á landi, en foreldrar þeirra komu þeim í sérstaka styrktarþjálfun og árangurinn sumarið eftir vakti þannig athygli að núna í vetur voru drengirnir orðnir þrettán talsins sem söfnuðust saman og hafa æft af kappi hjá afrekshópi Brettafélags Hafnarfjarðar (BFH).

Sigurður Ólason, núverandi Íslandsmeistari í fjallabruni og faðir annars drengsins, segir í samtali við Hjólablaðið að ákvörðun drengjanna hafi komið foreldrunum í opna skjöldu fyrir tæplega tveimur árum. Þau hafi hins vegar hallað sér upp að BFH og fengið Paul Cota til að sjá um styrktaræfingar drengjanna. Til viðbótar hafi Helgi Berg Friðþjófsson bæst við og komið að þjálfun, en líklega verður honum best lýst sem einskonar goðsögn hér á landi þegar kemur að hjólaíþróttinni fjallahjólamegin sem og í BMX.

Frá Íslandsmeistaramótinu í fjallabruni í Skálafell bike park sumarið 2021.
Frá Íslandsmeistaramótinu í fjallabruni í Skálafell bike park sumarið 2021.

Drengirnir eru á aldrinum 14 til 17 ára og koma þeir flestir úr BFH. Sigurður segir að meðal annars hafi einn þeirra verið að klára undirbúningsverkefni í Sviss á dögunum, en það er fyrir Evrópumótið í sumar. Þá sé hluti hópsins einnig að horfa til erlendra verkefna í sumar og kominn í landsliðsúrtakið.

Veðurfar á Íslandi er stundum þannig að það getur reynst óspennandi að stunda útiæfingar á veturna. Spurður hvort það hafi ekkert dregið úr hópnum í vetur segir Sigurður veðrið alls ekki hafa verið fyrirstöðu. „Hvort sem það er bleyta og rigning eða snjór, þeir mæta í öllum veðrum.“ Æfingar hafa meðal annars farið fram í Heiðmörk og uppsveitum Hafnarfjarðar, en hópurinn fór einnig í æfingabúðir í tvígang á Laugarvatn.

Meðal þess sem drengirnir æfa er aukin tækni, en hann segir bæði mikilvægt að þjálfa jafnvægi og tækni við krappar beygjur og aðrar krefjandi aðstæður. Þá sé æft í skrefum að fara alltaf í stærri og stærri palla til að stökkva af. Til viðbótar hafi hópurinn farið í markþjálfun þar sem þeir skoðuðu allir eigin styrkleiki og settu sér sjálfir markmið til að vinna með. „Þetta er líka hausinn,“ segir Sigurður. Þótt aðeins séu drengir í hópnum í dag segir Sigurður að hópurinn sé alveg opinn og hvetur hann stúlkur til að taka einnig þátt.

Hópurinn á Enduro bikarmóti á Ísafirði sumarið 2021.
Hópurinn á Enduro bikarmóti á Ísafirði sumarið 2021. Ljósmynd/Sigurður Ólason

Spurður um framtíðarskref hópsins og starfsins segir hann að hjá BFH sé verið að tala um hús fyrir félagið og aðstöðu á Völlunum. Þá vilji félagið einnig koma upp brautum á svæðinu. Fyrir hópinn séu drengirnir að finna sig í mismunandi greinum hjólreiðanna þótt aðaláherslan núna sé á fjallahjólreiðar. „Margir eru að horfa til landsliðsverkefna, en númer eitt, tvö og þrjú er að hafa gaman.“

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út á laug­ar­dag­inn. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert