Meinuðu Alvarez að keppa en læknir sagði hana í lagi

Andrea Fuentes kemur Anitu Alvarez til bjargar á miðvikudag ásamt …
Andrea Fuentes kemur Anitu Alvarez til bjargar á miðvikudag ásamt sundverði. AFP/Peter Kohalmi

Bandaríska sundkonan Anita Alvarez tók ekki þátt í liðakeppni í sundfimi á heimsmeistaramótinu í Búdapest í Ungverjalandi í dag eftir að það leið yfir hana í einstaklingskeppni á mótinu á miðvikudag.

Eftir rútínu sína í einstaklingskeppninni á miðvikudag féll Alvarez í yfirlið og sökk á botn sundlaugarinnar þar sem þjálfari hennar, Andrea Fuentes, stökk út í laug og bjargaði henni úr kafi.

Henni var komið tafarlaust undir læknishendur en leiddi læknisskoðun ekkert athugavert í ljós.

Lækni bandaríska landsliðsins þótti Alvarez því klár í slaginn fyrir liðakeppnina í dag en Alþjóðasundsambandið, FINA, var ekki á sömu skoðun og meinaði henni um þátttöku.

Alvarez féll einnig í yfirlið við keppni í Barcelona á síðasta ári og þá bjargaði Fuentes henni sömuleiðis.

„FINA tók ákvörðun um að meina henni um að keppa. Að mínu mati hefði hún getað keppt, ég er þess fullviss.

Ég lagði til öll læknisfræðileg gögn frá Anitu. Mér er ekki kunnugt um hvernig sambandið kemst að niðurstöðum í ákvarðanatökum sínum,“ sagði Selina Shah, læknir bandaríska landsliðsins, í samtali við AFP.

Hún bætti því þó við að læknateymi bandaríska liðsins vissi ekki enn hvað hafi valdið því að Alvarez hafi fallið í yfirlið.

„Heilsa og öryggi íþróttafólks verður alltaf að vera í fyrsta sæti. FINA skilur fullkomlega hvers vegna þessi ákvörðun valdi henni vonbrigðum, ákvörðunin var tekin með hennar hagsmuni í huga,“ sagði í yfirlýsingu frá FINA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert