Thelma Norðurlandameistari á slá – þrenn íslensk silfurverðlaun

Thelma Aðalsteinsdóttir, Hildur Maja Guðmundsdóttir, Guðrún Edda Min Harðardóttir, Ragnheiður …
Thelma Aðalsteinsdóttir, Hildur Maja Guðmundsdóttir, Guðrún Edda Min Harðardóttir, Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir og Valgarð Reinhardsson, verðlaunahafar Íslands í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum fullorðinna og unglinga lauk í dag í Versölum þar sem Thelma Aðalsteinsdóttir tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn á slá. Íslenska fimleikafólkið vann til alls sex verðlaunapeninga í dag.

Í dag var keppt í úrslitum á einstökum áhöldum og átti Ísland samtals tíu keppendur í úrslitum; þrjá í unglingaflokki og sjö í fullorðinsflokki.

Auk Thelmu átti Valgarð Reinhardsson einnig frábæran dag, en hann keppti á þremur áhöldum; gólfi, hringjum og stökki. Valgarð gerði mjög flottar gólfæfingar og átti tvö frábær stökk en hann hafnaði í öðru sæti á þessum tveimur áhöldum.

Hildur Maja Guðmundsdóttir keppti ásamt Agnesi Suto á gólfi. Hildur Maja sýndi svo sannarlega hvað í henni býr og framkvæmdi glæsilega gólfæfingu með miklu listfengi.

Keppnin var mjög hörð á gólfinu þar sem eingöngu munaði 0,05 stigum á milli Hildar og Ölvu frá Svíþjóð sem sótti sér titilinn. Hildur fór þó sátt heim með silfur um hálsinn.

Thelma var ekki sú eina sem framkvæmdi frábæra sláarseríu, það gerði einnig Guðrún Edda Min Harðardóttir sem skilaði henni 3. sætinu. Keppnin var það hörð á slánni að eingöngu munaði 0,2 stigum á milli Thelmu og Guðrúnar.

Ragnheiður Jenný Jóhannsdóttir, sem keppti í unglingaflokki, keppti á tveimur áhöldum í dag, á stökki og á gólfi. Stökkið hennar Ragnheiðar var framkvæmt með glæsibrag og skilaði það henni þriðja sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert