Kyrgios ákærður fyrir heimilisofbeldi

Nick Kyrgios.
Nick Kyrgios. AFP/Glyn Kirk

Ástralski tennisleikarinn Nick Kyrgios hefur verið ákærður fyrir heimilisofbeldi í garð fyrrverandi kærustu sinnar í heimalandi sínu Ástralíu. Þarf hann að mæta fyrir rétt í upphafi næsta mánaðar.

Frá þessu var greint í áströlskum fjölmiðlum í dag.

„Ástralska lögreglan getur staðfest að 27 ára gamall karlmaður frá Watson þarf að mæta fyrir rétt 2. ágúst í tengslum við ákæru vegna líkamsárásar sem er sögð hafa átt sér stað í desember 2021,“ sagði í yfirlýsingu frá áströlskum lögregluyfirvöldum sem þau sendu til CNN.

Jason Moffett, lögfræðingur Kyrgios, sagði að honum væri kunnugt um ákæruna og skjólstæðingi sínum sömuleiðis.

„Eðli ásakananna er alvarlegt og herra Kyrgios tekur þeim grafalvarlega,“ sagði Moffett í samtali við The Canberra Times, sem greindi fyrst frá.

Moffett sagði Kyrgios ekki hafa neitt að segja um málið á þessu stigi en að þeir muni gefa út fjölmiðlayfirlýsingu þegar fram líða stundir.

CNN hefur lagt fram fyrirspyrn til skipuleggjenda Wimbledon-mótsins varðandi það hvort ákæran muni hafa áhrif á þátttöku Kyrgios, sem er kominn í átta manna úrslit á mótinu, á því.

mbl.is