Fimm sundmenn tryggðu sér lágmark á Evrópumeistaramót unglinga í sundi sem fram fer í sumar, með góðum árangri á Íslandsmótinu í 50 metra laug í Laugardalslaug.
Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH tryggði sér lágmark í 100m flugsundi á tímanum 55,83 sekúndur.
Guðmundur Leó Guðmundsson bætti tíma sinn í 200m baksundi um tvær sekúndur, er hann synti á 2:06,61 mínútum og synti einnig undir lágmarki á EMU.
Þeir Einar Margeir Ágústsson, ÍA, og Snorri Dagur Einarsson, SH, syntu báðir undir EMU lágmarki í 100m bringusundi. Einar synti á 1:03,77 mínútu og Snorri á 1:04,18 mínútu.
Vala Dís Cicero úr SH synti 50m skriðsund á sínum besta tíma, 26,77 sekúndur, og tryggði sér einnig lágmark á EMU.