Nennti ekki í langt ferðalag til að lyfta létt

Þuríður hefur stöngina upp af pallinum með eld í æðum …
Þuríður hefur stöngina upp af pallinum með eld í æðum og keppnisskapið logandi í hverjum andlitsdrætti. Ljósmynd/Isaac J. Morillas

„Þetta gekk bara vel miðað við aldur og fyrri störf,“ segir Þuríður Erla Helgadóttir, lyftingakona og crossfit-kempa, glöð í bragði þar sem hún situr á þrekhjóli í Yerevan í Armeníu eftir að hafa lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum sem þar stendur nú yfir. Aldrei dauður punktur.

Þær eru tvær sem þar stíga á pallinn fyrir Íslands hönd á þessu Evrópumeistaramóti, Þuríður og Eygló Fanndal Sturludóttir sem lætur til sín taka á miðvikudaginn í -71 kg flokki.

Þuríður keppti hins vegar í -59 kg flokki og hafnaði þar í 13. sæti af 23 keppendum en sigurvegari í flokknum var hin geysisterka úkraínska Kamila Konotop sem lyfti 235 kg í samanlögðu og fékk allar lyftur gildar en mikið var um ógildar lyftur í flokki Þuríðar.

„Svokallað blóðbað“

„Þetta er svokallað blóðbað,“ segir Helga Hlín Hákonardóttir, formaður Lyftingasambandsins og þekkt keppniskona í greininni, við mbl.is en Helga er stödd á mótinu ásamt manni sínum Unnari Helgasyni en auk þess á Ísland sér einn fulltrúa í dómgæslu, Ernu Héðinsdóttur, alþjóðlegan dómara í efsta flokki, en Erna er auk þess ritari sambandsins. Síðast en ekki síst er Ingi Gunnar Ólafsson landsliðsþjálfari á staðnum.

Með blóðbaði á Helga Hlín við fjölda ógildra lyfta, sem einkenndar eru með rauðum bakgrunni á stigatöflu, ekki að mikið hafi verið um meiðsli í átökunum.

Þuríður hefur glímt við bakmeiðsli en nú lagt þau að …
Þuríður hefur glímt við bakmeiðsli en nú lagt þau að baki að mestu og er hugurinn þegar kominn með hana hálfa leið á næsta mót sem er í crossfit snemmsumars. Ljósmynd/Isaac J. Morillas

Þuríður hafnaði sem fyrr segir í 13. sæti að heildarstigum með 186 kg í samanlögðu en í hvorri keppnisgrein fyrir sig, snörun og jafnhendingu, hafnaði hún í 14. sæti.

„Ég er búin að vera meidd í bakinu þótt ég sé reyndar að mestu orðin góð núna nánast og er ekki búin að keppa í ólympískum lyftingum í meira en ár. Ég hefði getað farið á heimsmeistaramótið í desember en sleppti því vegna baksins, nennti ekki að fara í langt ferðalag til að vera bara í léttum lyftum,“ segir hún frá.

Reglurnar ósveigjanlegar

Þuríður opnaði með 79 kg lyftu í snörun, lyfti 82 kg í annarri lyftu en í þriðju lyftunni missti hún 84 kg aftur fyrir sig og var því ógild lyfta. Í jafnhendingu hóf hún leik með 100 kg og fékk svo 102 kg lyftu dæmda ógilda, „ég missti aðeins lás á olnboga og reglurnar eru strangar, þú mátt aldrei missa lás í olnboganum, þá er lyftan bara ógild“, segir Þuríður. Kviðdómur skoðaði upptöku af lyftunni en hélt sig við upphaflegan úrskurð dómenda.

Hún lauk þá keppni með því að lyfta 104 kg örugglega og var þessi síðasta lyfta hennar besta af jafnhendingarlyftunum. „Það er fjórum kílóum frá mínu besta og ég er bara ánægð með það, ég hef ekki mikið verið að lyfta yfir 80 [í snörun] og yfir 100 [í jafnhendingu] í mjög langan tíma. Ég var bara mjög ánægð með að fara að keppa aftur á ólympísku lyftingamóti og fá „fílinginn“ aftur,“ segir Þuríður.

Þuríður hefur verið í nokkuð löngu hléi frá keppni í …
Þuríður hefur verið í nokkuð löngu hléi frá keppni í ólympískum lyftingum og játar að henni hafi þótt gaman að koma til keppni á ný. Ljósmynd/Isaac J. Morillas

Auk þess passi tímasetning þessa móts ágætlega við Evrópumótið í crossfit í byrjun júní en Þuríður er ívið meira þeim megin í keppnismennsku sinni enda nokkrar keppnisgreinar crossfit mjög áþekkar ólympískum lyftingum, jafnvel alveg þær sömu. Þó er munur.

„Ólympískar lyftingar eru stór hluti af crossfit sem notar þessar hreyfingar, snörun og „clean and jerk“ [jafnhendingu], mikið í „wodum“ [keppnisgreinum í crossfit, wod = workout of the day]. Stundum gengur wod út á „max“ [mestu þyngd sem keppandi getur lyft] í snörun eða „clean and jerk“ og jafnvel bara eina til þrjár tilraunir til að ná því sem er svipuð uppsetning og á móti í ólympískum lyftingum,“ útskýrir Þuríður.

Reglur í crossfit séu hins vegar engan veginn jafn strangar og þar skipti til dæmis ekki máli að missa lás í olnbogum, „ef þú nærð stönginni upp þá náðirðu þyngdinni“, segir enn enn fremur. Einfalt mál.

„Undirbúningurinn gekk bara fínt,“ svarar hún aðspurð, „ég er samt eiginlega ekki með mikinn undirbúning fyrir svona keppni úr því ég er að æfa crossfit, ég æfi ólympískar lyftingar nánast á hverjum degi gegnum það. Ég hef bara verið að fara á þau mót sem mig langar á og sem ég kemst á alveg síðan 2014-'15, mér finnst þetta mjög skemmtilegt en þetta er bara allt öðruvísi pressa en í crossfit,“ segir Þuríður Erla Helgadóttir að lokum frá Armeníu, á leið í flug heim til Íslands að búa sig undir næstu áskorun í crossfit.

mbl.is