Biðst afsökunar á að hafa grínast með ástand Schumachers

Michael Schumacher.
Michael Schumacher. AFP

Antonio Lobato, spænskur sérfræðingur um Formúlu 1 kappaksturinn, hefur beðist afsökunar á ósæmilegum ummælum sínum þar sem hann gerði grín að ástandi Michael Schumacher.

Schumacher lenti í alvarlegu skíðaslysi fyrir tæpum áratug og hefur ekki náð fyrri heilsu síðan.

Lobato var að fjalla um japanska kappaksturinn um síðustu helgi þegar hann svaraði ummælum annars sérfræðings: „Lof­um Adri­an Newey að skjálfa því Ant­onio Lobato er að koma!“

Lobato svaraði: „Lof Michael að skjálfa! Eða… ekki Michael, hann get­ur ekki skolfið!“

Lobato hefur nú beðist afsökunar á þessum ummælum sínum.

Kannski vegna ferðaþreytu

„Ég gerði mistök án þess að hafa ætlað mér nokkuð illt. Þetta voru einföld mistök sem einkenndust af hreinum klaufaskap, hreinni vangetu til þess að tjá mig á réttan hátt.

Kannski var það vegna þess að ég hafði verið vakandi of lengi, vegna ferðaþreytu í Madríd eða einhvers, sem er ekki afsökun fyrir ykkur sem sáu þetta ekki.

Það sem átti sér stað er að ég gekk yfir strikið og lét ummæli falla sem eru ekki góð, sem eru ekki rétt og eru ekki í lagi. Ég ætlaði ekki að fara með gamanmál, ég ætlaði ekki að gera grín að Michael Schumacher.

Ég held að allir sem þekkja mig og vita hvaða mann ég hef að geyma viti það vel að ég myndi aldrei grínast með eitthvað svona, aldrei nokkurn tímann. En þetta var klaufalegt hjá mér,“ sagði Lobato í myndskeiði sem hann birti á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert