Elsa og Hörður heimsmeistarar

Hörður Birkisson og Elsa Pálsdóttir í Ulaanbaatar en á milli …
Hörður Birkisson og Elsa Pálsdóttir í Ulaanbaatar en á milli þeirra er þjálfarinn Kristleifur Andrésson. Ljósmynd/kraft

Elsa Pálsdóttir og Hörður Birkisson urðu bæði heimsmeistarar í sínum flokkum á heimsmeistaramóti öldunga í kraftlyftingum sem nú stendur yfir í Ulaanbaatar í Mongólíu.

Þau kepptu bæði í flokkum í klassískum kraftlyftingum þar sem keppt er án útbúnaðar.

Elsa varð heimsmeistari þriðja árið í röð í -76 kg flokki í aldursflokknum 60-69 ára. Hún sigraði með miklum yfirburðum og setti tvö heimsmet í leiðinni. Annars vegar í hnébeygju þar sem hún lyfti 140 kg og bætti eigið heimsmet um tvö kíló og hins vegar í réttstöðulyftu þar sem hún lyfti 170,5 kg. Í bekkpressu fékk hún silfurverðlaun með 62,5 kg lyftu. Samanlagður árangur hennar var 373 kg, sem gera 74,03 IPF-stig og hún varð önnur stigahæst kvenna yfir alla þyngdarflokka í sínum aldursflokki.

Hörður varð heimsmeistari í -74 kg flokki öldunga 60-69 ára þar sem baráttan um titilinn var mjög hörð. Hörður lyfti 175 kg í hnébeygju, fékk þar gullverðlaun og bætti eigið Íslandsmet um fimm kíló. Í bekkpressu lyfti Hörður 97,5 kg en þá náði helsti keppinautur hans, Bat-Erdene Shagdarsuren frá Mongólíu, 2,5 kg forystu. Í réttstöðulyftunni tryggði Hörður sér heimsmeistaratitilinn með 195 kg lyftu og setti um leið Íslandsmet. Samanlagður árangur hans er 467,5 kg og þar bætti hann Íslandsmet sitt um 12,5 kíló.

Þriðji Íslendingurinn keppir á mótinu á föstudaginn, Sæmundur Guðmundsson, en hann keppir í kraftlyftingum með útbúnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert