Valdís í fremstu röð í Sviss

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/ladieseuropeantour.com

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, er í góðri stöðu eftir fyrsta hringinn á VP Bank Ladies Open-golfmótinu sem hófst í Gams í Sviss í gær.

Hún lék hann á 70 höggum, tveimur undir pari vallarins, og er í áttunda til tólfta sæti af 126 keppendum á mótinu. Það er liður í LET Access-mótaröðinni, þeirri næststerkustu í Evrópu.

Valdís er aðeins tveimur höggum á eftir þeim efstu en Meghan MacLaren frá Englandi og Joana De Sa Pereira frá Portúgal léku hringinn á 68 höggum.

Valdís fékk fjóra fugla á hringnum, á fimmtu, áttundu, tíundu og sautjándu holu, en tvo skolla, á tólftu og fimmtándu holu. Hún var því um tíma á þremur höggum undir pari.

Valdís fer af stað á öðrum hring í hádeginu í dag að íslenskum tíma. Mótið í Gams er þriggja daga mót og það má mikið ganga á hjá Valdísi í dag til að hún komist ekki í gegnum niðurskurðinn og á lokahringinn sem er leikinn á morgun.