Valdís með grímu á milli högga

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. mbl.is/Golli

Valdís Þóra Jónsdóttir hefur lokið við að spila fyrsta hringinn á Hero Indian Open-mótinu í golfi í Nýju-Dehlí í Indlandi. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni.

Valdís Þóra lék fyrsta hringinn á 74 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Hún lék fyrstu níu holurnar á þremur höggum yfir pari þar sem hún fékk fjóra skolla en á seinni níu holunum gekk henni betur og lék þær á einu höggi undir pari.

Staðan:

Valdís er sem stendur í 53. sæti ásamt fleiri kylfingum en margir eiga eftir að ljúka leik. Mikil mengun er á þessu svæði og eftirfarandi skrifaði Valdís Þóra á Facebook-síðu sína í gærkvöld.

„Indland hefst í fyrramálið. Ég er stödd rétt fyrir utan Delí og völlurinn er geggjaður. Mikið staðsetningargolf og þetta verður þolinmæðisvinna því grínin eru með miklu landslagi og hörð og því ekki hægt að negla beint á pinnana. Loftslagsskilyrðin hér eru ekki góð. Ég mun vera með grímu á milli högga til þess að verja lungun en þeir líkja því að vera úti við hérna á daginn er eins og að reykja 50 sígarettur á dag.

Mengunin hérna er mjög mikil á morgnana og kvöldin og líkist einna helst þykkri þoku. Það er erfitt að sjá boltana lenda og síðustu tvo daga hefur ekki verið hægt að spila fyrir klukkan 9 á morgnanna en við vonum það besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert