„Hann vill bara losna við stjórnina og fá að ráða“

Sigmundur E. Ófeigsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar.
Sigmundur E. Ófeigsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það gustar aðeins um okkur,“ segir Sigmundur Ófeigsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar, þegar mbl.is leitaði viðbragða hans við brotthvarfi golfkennarans Sturlu Höskuldssonar hjá félaginu.

Sturla tjáir sig um málið á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann segist meðal annars hafa verið rekinn fyrir að hafa sagt að það væri óþolandi að vinna með Sigmundi.

„Samstarfið hefur ekki verið eins og best verður á kosið. Hann setur svo upp einhvern Facebook-hóp þar sem hann hraunar yfir stjórnina. Það er ekkert talað við okkur og við fengum svolítið af foreldrum á móti okkur. Við reyndum að ræða við hann en hann vill bara losna við stjórnina og fá að ráða. Stjórnin var einhuga um það að hún myndi ekki starfa undir þessu. Það var ekki bara formaður, heldur öll stjórnin,“ sagði Sigmundur.

Aðalfundi GA hefur verið frestað fram í janúar þar sem kjósa á nýja stjórn, en GA er einnig í leit að nýjum framkvæmdastjóra þar sem Heimir Örn Árnason mun láta af störfum.

„Það eru því miður uppákomur sem við getum vart sætt okkur við. Það er óreiða í bókhaldi hjá okkur og hlutirnir ekki alveg í lagi, og þess vegna höfum við frestað aðalfundi fram í janúar,“ sagði Sigmundur og blaðamaður spyr nánar út í bókhaldið.

„Það er ekki þjófnaður eða slíkt, en það er óreiða á því og framkvæmdastjórinn sem var ráðinn í fyrra [Heimir] treysti sér bara ekki í starfið. Honum hefur bara ekki tekist að berja saman bókhaldið og svo kemur þetta í kjölfarið,“ sagði Sigmundur og beinir orðum sínum aftur að máli Sturlu.

„Hann [Sturla] hefur bara uppi þannig orð í garð fólks það það er ekki hægt að vinna svona og það hefur bara orðið algjör trúnaðarbrestur,“ sagði Sigmundur.

Ekki eftirsótt að vera formaður

Eins og mbl.is greindi frá þá setti Sturla inn Facebook-færslu um málið þar sem hann virðist fá mikinn stuðning. Finnur Sigmundur til stuðnings í sinn garð sem formaður GA?

„Það er ekki eftirsótt að vera formaður og þegar ég tók við vildi enginn taka þetta að sér. En þetta kom okkur [stjórninni] í opna skjöldu þar sem við höfum stutt vel við bakið á unglingastarfinu. Það eru margfalt meiri peningar þar núna en hefur verið áður, en reksturinn þyngist núna þar sem voru miklar launahækkanir í fyrra. Það er stjórnarinnar að standa á bremsunni og auðvitað er engin gleði með það,“ sagði Sigmundur.

Í færslu Sturlu segist hann vonast eftir því að geta haldið starfi sínu áfram hjá GA undir nýrri stjórn, en Sigmundur vill ganga frá ráðningu á nýjum golfkennara sem fyrst.

„Það er áhugi að gera það strax og við viljum helst að framkvæmdastjóri geri það. En hann ákveður að hætta núna þar sem starfið var öðruvísi en hann hélt og hann á,“ sagði Sigmundur, en þvertekur fyrir að það sé illt á milli sín og Heimis Arnar.

„Það er óvægt þegar menn fara út í Facebook-færslur, það er oft eitthvað sem menn láta ekki út úr sér við hvern sem er,“ sagði Sigmundur Ófeigsson að lokum við mbl.is.

mbl.is