Valdís vann 240 þúsund krónur

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/Ladies European Tour

Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Leyni, hafnaði í 53. sæti á fyrsta móti sínu á Evrópumótaröðinni í golfi á þessu ári, Oates Vic-mótinu.

Eftir magnaðan viðsnúning á öðrum hring sínum náði Valdís sér ekki á strik á þriðja hringnum sem hún lék á 6 höggum yfir pari, og komst hún því ekki í gegnum seinni niðurskurðinn á mótinu. Aðeins 36 efstu kylfingarnir fengu að leika fjórða og síðasta hringinn og fagnaði heimakonan Minjee Lee sigri á samtals 13 höggum undir pari. Valdís lék samtals á 7 höggum yfir pari.

Verðlaunafé á mótinu er nokkuð hátt, en keppt er í kvenna- og karlaflokki á mótinu og eru sömu upphæðir í boði fyrir bæði kyn, sem er einsdæmi í atvinnugolfinu. Valdís vann sér inn 1.885 evrur, jafnvirði um 240 þúsunda króna. Lee fékk 62.853 evrur fyrir sinn sigur, sem jafngildir tæplega 7,9 milljónum króna.

Valdís leikur á fjórum mótum í Ástralíu og hefst næsta mót í Canberra á föstudaginn.