Birgir í sama móti og John Daly

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson Ljósmynd/Tristan Jones

Birgir Leifur Hafþórsson lék fyrsta hringinn á 70 höggum á móti á Evrópumótaröðinni sem hófst í Tékklandi í dag. Skorið á fyrsta hring er almennt býsna gott og er Birgir í 56. sæti sem stendur.

Birgir hefur komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur sterkum mótum á Evrópumótaröðinni að undanförnu, sterkustu mótaröð í álfunni. Bæði í Þýskalandi og í Svíþjóð. 

Haldi hann uppteknum hætti á morgun ætti hann að komast í gegnum niðurskurð keppenda á þriðja mótinu í röð. Slíkt skiptir máli því einungis þeir sem komast í gegn fá verðlaunafé. 

Birgir var stöðugur í dag en hann fékk fjórtán pör, þrjá fugla og einn skolla. Var hann því á tveimur höggum undir pari vallarins. 

John Daly
John Daly AFP

Ekki hafa allir lokið leik í dag en eins og áður segir gekk kylfingum vel að skora í dag. Fjórir efstu í mótinu léku á 65 höggum. 

Rokkstjarnan golfsins, John Daly, er með í mótinu og byrjar með látum en hann er á fimm undir pari eftir 9 holur. 

Englendingurinn Lee Westwood, sem eitt sinn var í efsta sæti heimlistans, er með í mótinu og lék á 66 höggum í dag. Fleiri hetjur sem áður gerðu garðinn frægan eru með í mótinu eins og Írinn Padraig Harrington, þrefaldur sigurvegari á risamótum. Hann er á tveimur undir pari eftir 9 holur. 

mbl.is