Woods og Mickelson mætast í Las Vegas

Phil Mickelson og Tiger Woods.
Phil Mickelson og Tiger Woods. AFP

Tveir af bestu kylfingum allra tíma, Tiger Woods og Phil Mickelson, munu dagana 23. og 24. nóvember mætast í sjónvarpseinvígi á Shadow Creek-golfvellinum í Las Vegas. Sigurvegari einvígisins mun vinna allt verðlaunaféð sem eru litlar 9 milljónir dollara eða 963 milljónir íslenskra króna.

„Þetta er tækifæri fyrir okkur til þess að sýna fólki golf á besta tíma á tímabili þar sem það er ekki mikið að gerast í heimi golfsins,“ sagði Phil Mickelson í viðtali við ESPN.

„Þarna getum við sýnt fólki hliðar á okkur sem fólk er ekki vant að sjá með því að láta okkur vera með hljóðnema þannig að fólk getur heyrt okkur eiga samskipti.“

Þrátt fyrir að það fari vel á með þeim segir Mickelson að það sé enginn möguleiki á því að þeir muni deila verðlaunafénu:

„Ef það yrði gert þá verður þetta ekki jafnskemmtilegt. Þetta gengur allt út á að sigurvegarinn vinnur allt. Það er það sem gerir einvígið svona spennandi.“ 

Verðlaunaféð fyrir einvígið er mun hærra en gengur og gerist í golfinu og mun annar þeirra hlaupa hlæjandi í bankann eftir að keppninni lýkur. Sá sem bítur í súra eplið mun þó sennilega ekki vera á flæðiskeri staddur en á ferlum sínum hafa Woods og Mickelson unnið sér inn yfir 150 milljónir dollara í verðlaunafé.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert