Trump hæstánægður með Tiger

Tiger Woods þurfti ef til vill að bíta í vörina …
Tiger Woods þurfti ef til vill að bíta í vörina þegar fjölmiðlafólk hætti að spyrja um golf og spurði þess í stað um stjórnmálamann. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, gerði samskipti Tiger Woods við fjölmiðla að umræðuefni í Twitter-færslu og virtist hæstánægður með kylfinginn sem var spurður út í kunningsskap sinn við Bandaríkjaforseta. 

Að loknum fjórða og síðasta hringnum á Northern Trust-mótinu síðasta sunnudag fékk Tiger spurningar varðandi kunningsskap sinn við Trump. Var hann beðinn um að lýsa þeirra samskiptum. Tiger svaraði því til að þeir hafi þekkst nokkuð lengi og nokkrum sinnum verið í sama ráshópi á golfvellinum. Hann hefði auk þess snætt kvöldverð með Trump. Tiger sagðist sem sagt hafa haft kynni af Trump bæði sem forseta en einnig áður en hann fór í pólitíkina. 

Í framhaldinu var Tiger spurður um hvort hann vildi tala til fólks sem þætti sérkennilegt að hann héldi kunningsskap við Trump, stjórnmálamann sem samkvæmt fjölmiðlamanninum sem bar spurninguna fram, hefur á sér rasískan blæ vegna ýmissa ummæla í stjórnartíð sinni og kosningabaráttunni. 

„Hann er forseti Bandaríkjanna. Maður á að bera virðingu fyrir embættinu. Burtséð frá því hver gegnir embættinu, og hvaða skoðanir þú kannt að hafa á viðkomandi eða skoðunum viðkomandi, þá eigum við að bera virðingu fyrir embættinu,“ svaraði Tiger Woods.

Forsetinn virðist fylgjast vel með umræðunni um sig og var lukkulegur með tilsvör Tigers ef marka má Twitterfærsluna: 

„„The Fake News Media“ reyndi að fá Tiger Woods til að segja eitthvað sem hann langar ekki til að segja. Tiger vildi ekki spila með, hann er mjög snjall. En það sem skiptir máli er að hann er aftur farinn að spila gott golf.“

Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert