Ólafía úr leik í Oneida

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lauk fyrir stundu keppni á LPGA-mótinu Thornberry Classic í Oneida í Bandaríkjunum en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi á mótinu.

Ólafía lék fyrsta hringinn í gær á 74 höggum, tveimur yfir pari vallarins, en þar sem skor keppenda var mjög gott í heildina var hún talsvert frá niðurskurðarlínunni.

Bilið breikkaði enn frekar í kvöld, Ólafía náði ekki að komast nær baráttunni um að fara áfram og þegar upp var staðið lék hún hringinn á 76 höggum, fjórum höggum yfir pari. Þar með endaði Ólafía í 137. sæti af 140 keppendum á samtals sex höggum yfir pari en leika þurfti á fimm höggum undir pari til að komast í gegnum niðurskurðinn.

Sung Hyun Park frá Suður-Kóreu er með forystu eftir tvo hringi á 17 höggum undir pari vallarins, eftir að hafa leikið annan hringinn á 62 höggum. Yealimi Noh frá Bandaríkjunum er næst á 16 höggum undir pari og Ariya Jutanugarn frá Taílandi lék á 15 höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert