Valdís flaug upp um 63 sæti

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/LET

Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur hækkar sig um 63 sæti á heimslista kvenna í golfi eftir að hafa endað í sjöunda sæti á South African Women's Open-mótinu í Höfðaborg sem lauk um síðustu helgi.

Valdís var í síðustu viku í 599. sæti en í listanum sem birtur er í þessari viku er hún í 536. sæti. Hún var í 629. sæti í byrjun árs en besta staða hennar á listanum er 299. sæti í mars 2018.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er í 874. sæti listans og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í 875. sæti. Ólafía hefur náð lengst íslenskra kylfinga í 170. sætið í janúar 2018 og besti árangur Guðrúnar er 790. sæti í júní 2019.

mbl.is