„Þessi er sætastur“

Guðrún Brá eftir að hún varð Íslandsmeistari í gær.
Guðrún Brá eftir að hún varð Íslandsmeistari í gær. Ljósmynd/GSÍ

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, úr Keili, virðist nánast óstöðvandi á Íslandsmótinu í golfi. Alla vega ef horft er til þess að hún varð í gær Íslandsmeistari þriðja árið í röð. Eftir að hún komst á bragðið, og vann mótið í fyrsta skipti í Vestmannaeyjum árið 2018, hefur hún ekki sleppt takinu af bikarnum.

Sigur Guðrúnar í gær kom þó eftir mikla dramatík. Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur virtist líkleg til að næla í sinn fyrsta sigur á Íslandsmótinu. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, einnig úr GR, var með forystuna eftir fyrsta keppnisdag. Ragnhildur tók hins vegar forystuna á öðrum keppnisdegi og lék af töluverðu öryggi í þrjá daga. Hún hélt forystunni og þegar níu holur voru eftir í gær hafði hún fjögurra högga forskot. Að lokum þurfti að útkljá einvígið í þriggja holu umspili.

„Jú, þú getur eiginlega sagt að ég hafi stolið sigrinum. En þetta var auðvitað hörkubarátta og það má alveg segja að ég hafi verið hæg af stað í dag. Mér fannst eins og möguleikinn á sigri væri að verða fjarlægur en svo hrökk ég í gang eftir níu holur. Fyrir vikið urðu seinni níu holurnar hörkuspennandi. Flesta dagana var ég bara tveimur höggum eða svo frá efsta sætinu og það er svo lítið í svona fjögurra daga móti. Slíkt getur snúist á nánast einni holu og sérstaklega þegar veðrið er svona. Aðstæður voru krefjandi og það gat hvað sem er gerst í dag,“ sagði Guðrún þegar Morgunblaðið spjallaði við hana.

Sigurinn var frábrugðin hinum tveimur fyrri því í þeim mótum var hún lengi með forystuna en í þetta skiptið var hún að elta. „Já ég get alveg sagt að þessi titill sé sætastur þótt hinir hafi verið geggjaðir. Þetta var mest spennandi mótið af þremur síðustu.“

Viðtalið við Guðrúnu í heild sinni og umfjöllunina um Íslandsmótið má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »