Líkaminn þolir ekki mikið meira

Valdís Þóra Jónsdóttir er hætt í atvinnumennsku.
Valdís Þóra Jónsdóttir er hætt í atvinnumennsku. Ljósmynd/LET

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir er hætt í atvinnumennsku en þetta staðfesti hún á samfélagsmiðlum í dag.

Valdís, sem er einungis 31 árs gömul, hóf ferilinn á Akranesi þar sem hún ólst upp en hún hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari í höggleik.

Hún lék á Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu, frá 2017 til 2020, og þá tók hún þátt í tveimur risamótum á ferlinum, Opna bandaríska árið 2017 og Opna meistaramótinu árið 2018.

„Þá er kominn sá tími að ég hef ákveðið að leggja atvinnuferilinn á hilluna,“ sagði Valdís í færslu sem hún birti á Facebook, Twitter og Instagram.

„Það liggja margar ástæður að baki en sú stærsta er að líkaminn þolir ekki mikið meira. Eftir höfðinu dansa limirnir og þeir hafa gert það undanfarin þrjú ár. Þrjú ár af stanslausum sársauka sem ég náði að harka í gegnum vegna keppnisskaps, þrjósku og metnaðar. En nú er mál að linni. Ég hef ákveðið að hlusta á líkamann og segja þetta gott,“ sagði Valdís meðal annars.

Síðastliðna fjóra mánuði hef ég fengið 15 sterasprautur í bakið og búið er að fara inn í taugar og gefa þeim rafstuð en í hvert sinn sem ég byrja að sveifla af fullum krafti aftur hafa verkirnir blossað upp af sama krafti. Síðasta trompið sem við áttum eftir var að brenna taugaenda af, og hefur það verið gert á fjórum taugum en enn eru eftir tvær. Þetta eru mikil inngrip í líkamann, sársaukafull og erfið. Líkamleg og andleg heilsa mín skiptir mig einfaldlega meira máli en íþróttin er farin að gera,“ bætti Valdís við en færslu hennar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

 

mbl.is