Masters-meistarinn á 74 höggum

Dustin Johnson gekk misjafnlega að lesa flatirnar í dag eins …
Dustin Johnson gekk misjafnlega að lesa flatirnar í dag eins og mörgum öðrum. AFP

Dustin Johnson, efsti kylfingur heimslistans, hefur lokið leik á fyrsta keppnisdegi á Masters-mótinu í golfi á Augusta National í Georgíuríki í Bandaríkjunum. 

Johnson sigraði á Masters í fyrra en þá var mótinu frestað fram í nóvember. Johnson lék í dag á 74 höggum. Var hann á parinu eftir 17 holur en fékk skramba á síðustu holunni. 

Á ýmsu gengur á Augusta vellinum en flatirnar eru mjög erfiðar viðureignar eins og þær eiga að vera þegar best lætur. Nú eru þær harðar eftir mikla veðurblíðu að undanförnu og þarf mikla færni í vippum og púttum til að ná góðu skori. 

Japaninn Hideki Matsuyama er efstur þeirra sem hafa lokið leik ásamt Brian Harman. Þeir léku á 69 höggum eða þremur undir pari. Webb Simpson er á meðal þeirra sem léku á 70 höggum. 

Brooks Koepka er tæpur vegna meiðsla en ákvað að vera með og lék á 74 höggum. 

Rory McIlroy náði sér ekki á strik og lék á 76 höggum. Hann þarf að gera betur til að komast í gegnum niðurskurðinn og Jason Day sem oft hefur leikið vel á Masters var á 75 höggum. 

Margir kylfingar eiga eftir að ljúka leik í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert