Ólympíumeistarinn með gott forskot

Justin Rose var eldhress að hringnum loknum og þakkar hér …
Justin Rose var eldhress að hringnum loknum og þakkar hér kylfusveininum David Clark fyrir hringinn. AFP

Ólympíumeistarinn Justin Rose er langefstur að loknum fyrsta keppnisdegi á Masters-mótinu í golfi.

Mótið er fyrsta risamót ársins hjá körlunum og fer ávallt fram á hinum glæsilega Augusta National-velli. Ekki hafa allir lokið leik á fyrsta keppnisdegi en ljóst er orðið að enginn mun komast nálægt Rose á þessum fyrstu 18 holum.

Mikla útsjónarsemi þarf á flötunum á Augsta National. Hideki Matsuyama …
Mikla útsjónarsemi þarf á flötunum á Augsta National. Hideki Matsuyama á hringnum í dag. AFP

Rose skilaði inn skori upp á 65 högg og er á sjö undir pari. Er hann með fjögurra högga foskot á Brian Harman og Hideki Matsuyama. Framan af var ekkert sem benti til þess að Justin Rose myndi eiga sérlega góðan hring. Eftir sjö holur var hann á tveimur höggum yfir pari og hafði ekki fengið fugl. En þá hrökk Englendingurinn í gang og lék næstu tíu holur á níu undir pari. 

Áhugafólk um Masters skyldi forðast að horfa of mikið í Mastersmótið í fyrra. Allt aðrar aðstæður voru í nóvember og flatirnar mun mýkri. Völlurinn var á allan hátt mun auðveldari í nóvember enda var skorið í mótinu gott.

Harman og Matsuyama eru næstir á eftir Rose á 69 höggum. Enginn þessara þriggja hafa unnið Masters og Rose er sá eini þeirra sem unnið hefur risamót en hann vann Opna bandaríska meistaramótið árið 2013. Rose hefur tvívegis hafnað í 2. sæti á Masters og oftar en einu sinni verið efstur að loknum fyrsta keppnisdegi frá árinu 2004.

Ellefu kylfingar hafa lokið leik undir pari. Kylfingar á borð við Justin Thomas, Jordan Spieth, Collin Morikawa og Bryson DeChambeau eru enn úti á velli. Enginn þeirra mun skila inn frábæru skori en Spieth er -1 eftir 16 holur. Morikawa +1 eftir 17, Thomas +1 eftir 17 og DeChambeau +4 eftir 17.

Patrick Reed sem sigraði á Masters árið 2018 lék á …
Patrick Reed sem sigraði á Masters árið 2018 lék á tveimur undir pari. AFP

Skor hjá völdum þekktum kylfingum sem lokið hafa leik: 

-2 Webb Simpson

-2 Patrick Reed 

-1 Si Woo Kim

-1 Shane Lowry

-1 Tyrrell Hatton

Par Xander Schauffele

Par Jon Rahm

+1 Henrik Stenson

+1 Viktor Hovland

+1 Paul Casey

+1 Gary Woodland

+2 Steward Cink

+2 Bernhard Langer

+2 Ian Poulter

+2 Bubba Watson

+2 Brooks Koepka

+2 Dustin Johnson

+2 Francesco Molinari

+2 Tommy Fleetwood

+3 Jose Maria Olazabal

+3 Phil Mickelson

+4 Danny Willet

+4 Sergio Garcia

+4 Rory McIlroy

+5 Jason Day

+5 Zach Johnson

+6 Lee Westwood

+6 Mike Weir

+6 Matt Kuchar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert