Ekki leikið við Frakka í Egilshöll

Nikola Karabatic og Sverre Jakobsson takast ekki á í Egilshöll, …
Nikola Karabatic og Sverre Jakobsson takast ekki á í Egilshöll, heldur Laugardalshöll. AP

„Það verður ekkert af því að landsleikirnir við Frakka verði í Egilshöllinni einfaldlega vegna þess að það er allt of dýrt dæmi að leigja áhorfendabekkina,“ segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ.

 Sambandið hefur um nokkurn tíma kannað kostnað við að leigja bekki fyrir 6.500 til 7.000 áhorfendur og setja upp í Egilshöll og leika þar tvo vináttulandsleiki við heims-, Evrópu- og ólympíumeistara Frakka í handknattleik 16. og 17. apríl.

Einar segir að heildarkostnaður við verkefnið væri ekki undir 19 milljónum króna, þar af væri leiga á bekkjum um 11 milljónir. „Þetta er einfaldlega of dýrt dæmi, því miður,“ segir Einar sem hefur ákveðið að landsleikirnir fari fram í Laugardalshöll og hefst miðasala á midi.is á föstudag.

„Það væri gaman að geta boðið upp á svo glæsilega aðstöðu þegar tvö bestu landslið heims í handknattleik mætast en því miður er það ekki mögulegt. Til þess að þetta væri mögulegt þyftu þessir bekkir að vera til í landinu, en því er ekki að heilsa,“ segir Einar.

Einar segir að því miður sé heldur ekki til í landinu neitt fjölnota íþróttahús líkt og í mörgum nágrannalöndum okkar þar sem búnaður sem þessi væri fyrir hendi og nýttist fyrir alls kyns viðburði, ekki aðeins fyrir íþróttakappleiki. „Áhugi á íslenska landsliðinu í handknattleik hefur fyrir löngu sprengt Laugardalshöllina utan af sér,“ segir Einar sem árum saman hefur talað fyrir daufum eyrum fyrir því að til væri í landinu fjölnota íþróttahús sem gæti rúmað fimm til sex þúsund áhorfendur í sæti. iben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert