Skuldaði sjálfri mér að prófa að vera með

Rakel Dögg Bragadóttir lék sinn fyrsta leik í rúm tvö …
Rakel Dögg Bragadóttir lék sinn fyrsta leik í rúm tvö ár í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Rakel Dögg Bragadóttir lék í kvöld sinn fyrsta leik í rúmlega tvö ár þegar Stjarnan steinlá á heimavelli gegn Haukum í Olís-deild kvenna í handknattleik, 25:16. Hún hefði getað hugsað sér betri úrslit en var ánægð með að vera kominn aftur á völlinn.

„Tilfinningin er mjög góð fyrir utan leiðinlegt tap. Það er ótrúlega gaman að vera komin aftur inn í hópinn og ég er mjög spennt. Það eru skemmtilegir tímar framundan og rosalega gaman að geta tekið þátt,“ sagði Rakel eftir leikinn í Garðabænum í kvöld. 

Rakel varð fyrir höfuðmeiðslum á landsliðsæfingu í nóvember 2013 og tilkynnti hún í lok janúar 2014 að hún yrði þess vegna að leggja skóna á hilluna. 

„Ég er búin að taka miklum framförum, með höfuðið, og það hefur gengið ótrúlega vel síðan ég átti hann fyrir sex mánuðum,“ sagði Rakel um ástæðu þess að hún er byrjuð að spila aftur og átti við sex mánaða son sinn sem hún hélt á.

„Mér fannst ég pínu skulda sjálfri mér að prófa og vera aðeins með. Það er leiðinlegt að hætta þegar þú gerir það ekki á þínum eigin forsendum, þannig að ég ákvað að slá til og prófa og er ótrúlega ánægð. Vonandi gengur betur í næsta leik en þetta er rosa gaman.“

Hún vildi ekki kalla þetta endurkomu en vonast þó til að halda áfram að spila með Stjörnunni í næstu leikjum. „Ég er aðeins að taka einn dag í einu og skoða hvernig ég verð og hvernig það gengur en þá verð ég með út tímabilið,“ sagði Rakel að lokum og eins og til að undirstrika það gaf sex mánaða strákurinn blaðamanni fimmu.

mbl.is

Bloggað um fréttina