Danir töpuðu afar óvænt

Jakub Hrstka fagnar einu marka Tékka í kvöld.
Jakub Hrstka fagnar einu marka Tékka í kvöld. ATTILA KISBENEDEK

Það var markvörður Tékka, Martin Galia, sem var hetja liðsins sem lagði Dani gríðarlega óvænt að velli, 28:27, á EM í handknattleik sem fram fer í Króatíu. Á sama tíma unnu Makedónar Svartfellinga með eins marks mun, 29:28.

Fyrir leikinn í kvöld voru nánast allir búnir að bóka danskan sigur enda liðið gríðarlega öflugt en svo fór aldeilis ekki. Galia varði 17 skot í leiknum og var með 40% markvörslu og varði oft og títt frá Dönum í opnum færum.

Danir komust fjórum mörkum yfir í leiknum en Tékkar gáfust ekki upp. Þeir héldu út og voru tveimur mönnum færri í 30 sekúndur í stöðunni 28:27. Galia varði hins vegar frá Rasmus Lauge í dauðafæri í þeirri stöðu. Tékkarnir héldu svo boltanum út þær 20 sekúndur sem eftir lifðu leiks.

Þrátt fyrir tapið eru Danir komnir áfram í milliriðilinn þar sem stigalausir Ungverjar geta ekki nema náð tveimur stigum og jafnaði Dani að stigum þar sem þeir hafa betri innbyrðis viðureignir. Danir eiga hins vegar eftir leik gegn Spánverjum og gætu farið inn í milliriðilinn með færri stig en þeir hefðu viljað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert