Viljum komast aftur á pall

Nokkrir af íslensku landsliðsmönnunum.
Nokkrir af íslensku landsliðsmönnunum. AFP

Eins og sakir standa er Ísland ekki með eitt af bestu landsliðum heims í handknattleik. Niðurstaðan á síðustu mótum undirstrikar það.

Á síðustu fjórum stórmótum hefur liðið fallið úr keppni í 16-liða úrslitum; á HM 2015 og 2017 og eftir riðlakeppni á EM 2016 og 2018. Á góðum degi er Ísland engu að síður erfiður andstæðingur fyrir hvaða landslið sem er. Í íslenska liðinu má finna einn besta leikmann í íþróttinni, Aron Pálmarsson, markahæsta leikmann í sögu landsliða heimsins, Guðjón Val Sigurðsson, og leikmenn sem unnið hafa ólympíuverðlaun. Ákveðnir möguleikar eru því í stöðunni en liðið er þó ekki nógu vel mannað til að spila til verðlauna á stórmótunum.

Þegar Ísland vann tvívegis til verðlauna 2008 og 2010 var liðið betur mannað og leikmenn léku með sterkari félagsliðum. Litlu munaði að það velgengnisskeið yrði lengra því liðið féll úr keppni í 8-liða úrslitum á HM 2007 og ÓL 2012 eftir tvíframlengda leiki í báðum tilfellum. Afreksíþróttalífið á Íslandi er ekki sérstaklega gamalt en handboltalandsliðið er þó orðið rótgróið og tengist þjóðarsálinni sterkum böndum. Fyrst við Íslendingar höfum upplifað að eiga eitt af bestu landsliðum í heimi viljum við væntanlega upplifa það á ný.

Skal ráða til langs tíma?

Stjórn HSÍ mun á næstunni velta vöngum yfir þjálfaramálum. Gera upp við sig hvort það vilji vinna áfram með núverandi þjálfarateymi eða ekki. Ef ekki þá tekur væntanlega við ferli þar sem leita þarf að nýjum mönnum. Hvor leiðin sem verður farin þá væri mjög spennandi tilhugsun að farið yrði í langtímaráðningu vegna þeirra kynslóðaskipta sem eru að eiga sér stað. Gera þriggja til fjögurra ára samning og gefa viðkomandi tíma til að setja saman lið sem á að koma Íslandi aftur í fremstu röð. Það hlýtur að vera markmiðið.

En sterk bein þarf hjá forystumönnum HSÍ til að fara slíka leið því henni fylgir viss áhætta. Skapast hefur mikil pressa á að liðið sé á stórmóti á hverju ári. Því fylgir markaðssetning á íþróttinni hérlendis og væntanlega auðveldara að afla fjár. Auk þess hafa margir miklar áhyggjur af því að Ísland lendi ekki í neðri styrkleikaflokki í undankeppnum. Þá þarf að glíma við sterkari þjóðir til að komast inn á stórmót. Allt er þetta skiljanlegt en spurningin er hvort hægt sé að hanna nýtt lið undir slíkum kringumstæðum. Fá yngri menn nægileg tækifæri ef þessi áhyggjuefni eru sífellt yfirvofandi?

Að þessu sögðu þá hef ég verið hrifinn af þeirri línu sem Geir Sveinsson og Óskar Bjarni Óskarsson hafa tekið að undanförnu. Ungir menn hafa fengið tækifæri og sjálfsagt væru þeir fleiri ef efnilegir varnarmenn væru sýnilegir. Því er ekki að heilsa. Ekki er hægt að fylla nútímahandboltalið af mönnum sem geta bara spilað annaðhvort sókn eða vörn með góðu móti. Ýmir Örn Gíslason var tekinn með á EM og fékk að upplifa stórmót, sem er jákvætt. Mjög klókur varnarmaður en ekki tilbúinn í þau líkamlegu átök sem fylgja því að glíma við heimsklassaleikmenn.

Sjá alla viðhorfsgrein Kristjáns í íþróttblaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert