Handbolti snýst aðallega um vörn

Teitur Örn Einarsson skoraði 10 mörk fyrir Selfoss í kvöld.
Teitur Örn Einarsson skoraði 10 mörk fyrir Selfoss í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Teitur Örn Einarsson, leikmaður Selfoss, fór aftur illa með ÍR er hann skoraði 10 mörk í 37:25 sigri í Breiðholtinu í 17. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Teitur skoraði sömuleiðis 10 mörk í fyrri viðureign liðanna sem Selfoss vann einnig, 32:26.

Selfyssingar fóru vel af stað og höfðu yfirhöndina frá fyrstu mínútu og hrósaði Teitur sínum mönnum í hástert.

„Góð byrjun og líka góð liðsheild skiluðu þessu, við vorum ákafir, spiluðum vel og mættum frá fyrstu mínútu. Okkur langaði mjög mikið í þennan sigur.“

Selfyssingar hafa verið duglegir að spila 6-0 og 3-2-1 í vörn í vetur en komu ÍR-ingum í opna skjöldu í kvöld með 5-1 vörn, var það áætlunin?

„Bæði og, líka til að breyta til og hafa fleiri varnir í vopnabúrinu. Það er gott að geta breytt til ef allt annað klikkar. Í handbolta snýst þetta alltaf aðallega um vörn og við spilum hana betur en ÍR-ingar í dag.“

Þessi sigur styrkir stöðu Selfoss í toppbaráttunni en liðið ætlar sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni.

„Alveg klárlega, við erum með okkar markmið og ætlum að reyna ná þeim í lok tímabils. Við tökum núna eitt skref í einu í þá átt.

Selfoss tapaði síðasta deildarleik á heimavelli og rétt marði svo 1. deildar lið Þróttar í bikarnum um daginn en Teitur sagði það hafa verið undir leikmönnum liðsins komið að koma sterkir til leiks í kvöld.

„Þetta var undir okkur komið, í hausnum á okkur. Við þurftum að sýna hvað í okkur býr og úr hverju við erum gerðir.“

mbl.is