William Hung var með skemmtiatriði

Snorri Steinn í eldlínunni í kvöld en hann er spilandi …
Snorri Steinn í eldlínunni í kvöld en hann er spilandi þjálfari Vals. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Snorri Steinn Guðjónsson og liðsfélagar og lærisveinar hans unnu sterkan þriggja marka sigur á Eyjamönnum í leik liðanna í kvöld. Leikurinn átti að fara fram fyrr í mánuðinum, en var frestað vegna bikarleiks ÍBV gegn Gróttu.

Heimamenn í ÍBV byrjuðu leikinn miklu betur og leiddu allan fyrri hálfleikinn, það var ekki fyrr en vel var liðið á seinni hálfleikinn að Valsmenn komust yfir, Snorri Steinn var sérstaklega ánægður með liðsheild sinna manna.

„Mér fannst þetta vera frábær liðsheild, frábær barátta, vilji og karakter. Það eru hlutirnir sem ég tek úr þessum leik, ég gerði það í rauninni líka í síðasta leik, þegar við töpuðum á móti FH. Það var erfitt að horfa á þann leik, en hrikalegt hrós á drengina að rífa sig í gang og spila þennan leik svona eins og við erum að gera.“

Það voru mikil vonbrigði fyrir Valsmenn að fá ekki stig gegn FH, þeir lenda síðan fjórum mörkum undir í fyrri hálfleik í kvöld, það var því frábært hjá Valsmönnum að koma inn í seinni hálfleikinn af þeim krafti sem þeir gerðu.

„Það er alltaf mikilvægt að vinna og fá stig, við duttum út úr bikarnum og spiluðum illa þar en ég er búinn að vera nokkuð ánægður með braginn á liðinu síðan við komum aftur úr janúarpásunni. Fullt af jákvæðum hlutum sem ég tek úr þessum leikjum, ég finn það á drengjunum að það er að myndast spenna og annað slíkt sem er gott fyrir úrslitakeppnina. Þetta er bara einn sigur og ennþá langt í land fyrir okkur þannig séð.“

Það var mikið að leikmönnum sem lögðu hönd á plóg í þessum leik, Snorri á sjálfur góð mörk sem og Ryuto sem kom inn þegar lítið var eftir. Magnús Óli Magnússon var einnig góður í leiknum, er liðsheildin svona sterk?

„Eins og ég sagði þá er það liðsheildin sem er góð, Óli (Ólafur Ægir Ólafsson) fær rautt spjald og Inage kemur þarna inn, hann er hálfgerður match-winner og sama með Sigga (Sigurð Ingiberg Ólafsson) í markinu. Einar var búinn að vera flottur en við ákváðum að setja Sigga inn, hann tók þessa tvo, þrjá eða fjóra bolta sem við þurftum fyrir sigri. Það lögðu allir hönd á plóg og það er ég hrikalega ánægður með.“

Mikil stemning var í húsinu í kvöld og ákveðinn úrslitakeppnisbragur á leiknum, pakkfullt hús og það hlýtur að vera gaman að spila svona leiki.

„Já, ég hef aldrei spilað deildarleik í þessu húsi, ég er það gamall. Ég spilaði síðast landsleik hér þegar William Hung var með skemmtiatriði. Það er mjög gaman að koma til Eyja og það eru mörg lið og líka við Valsmenn sem mættu taka þá til fyrirmyndar og fjölmenna á leiki. Eins og ég segi er stutt í alvöruna og mér finnst ég líka finna það á liðunum að þetta er að bresta á.“

Býst Snorri við því að koma aftur til Eyja á tímabilinu?

„Ég vona það, að við blöndum okkur í efstu fjögur og losnum þá við þá í 8-liða. Ef ég fæ ÍBV þá þýðir það að við séum komnir eitthvað áfram og það vil ég.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert