Aron Rafn til Hamburg

Aron í læknisskoðun hjá Hamburg.
Aron í læknisskoðun hjá Hamburg. Ljósmynd/Hamburg

Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson er genginn í raðir þýska B-deildarliðsins HSV Hamburg en hann skrifaði undir samninginn við félagið að undangenginni læknisskoðun.

Aron Rafn varð þrefaldur meistari með Eyjamönnum á síðustu leiktíð en hann var virkilega öflugur eftir áramótin og fór á kostum í úrslitakeppni Olís-deildarinnar og var útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar.

„Aron er góð viðbót í okkar hóp og við erum mjög ánægðir með að hafa sannfært hann um að koma til okkar. Með reynslu hans í markinu erum við vel undirbúnir fyrir slaginn í annarri deildinni,“ segir Torsen Jansen, þjálfari Hamburg, á vef félagsins.

Aron Rafn Eðvarðsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í vor.
Aron Rafn Eðvarðsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í vor. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Saga Hamburg er mjög heillandi og ég er mjög spenntur að vera orðinn hluti af þessu liði. Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Aron sem er 28 ára gamall og er uppalinn í Haukum. Hann mun klæðast treyju númer 28 hjá þýska liðinu.

HSV Hamburg vann Meist­ara­deild Evr­ópu fyr­ir fimm árum en lenti í fjár­hagserfiðleik­um nokkru síðar og varð gjaldþrota og gert að leika í 3. deild frá og með leiktíðinni 2016/​2017. Í vor vann liðið sig upp úr 3.deild og sér fram á bjart­ari tíma utan vall­ar sem inn­an á næstu árum.

Aron Rafn hefur áður reynt fyrir sér í atvinnumennsku. Hann lék með sænska liðinu Guif frá 2013-15, Aalborg í Danmörku tímabilið 2015-16 og með þýska liðinu Bietigheim 2016-17. Aron hefur spilað 74 leiki með íslenska A-landsliðinu og hefur í þeim skorað 4 mörk.

 

mbl.is