Svekkjandi tap Kiel í stórleiknum

Alfreð Gíslason mátti þola afar svekkjandi tap.
Alfreð Gíslason mátti þola afar svekkjandi tap. Ljósmynd/Carsten Rehder

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel þurftu að sætta sig við afar svekkjandi 26:25-tap fyrir Flensburg í A-deild Þýskalands í handbolta í dag. Flensburg komst í 26:23 skömmu fyrir leikslok áður en Kiel skoraði tvö síðustu mörkin en Flensburg hélt út. 

Flensburg er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Kiel tapaði sínum fyrsta leik og er liðið í sjötta sæti með fjögur stig eftir þrjá leiki. 

Erlangen tapaði svo á svekkjandi hátt fyrir Göppingen á heimavelli 25:24. Nemanja Zelenovic skoraði sigurmarkið í blálokin. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar Erlangen sem er með tvö stig eftir þrjá leiki.

Í B-deildinni skoraði Ragnar Jóhannsson sex mörk fyrir Hüttenberg sem tapaði fyrir Dormagen á heimavelli, 30:29, á afar svekkjandi degi fyrir Íslendinga í þýska handboltanum. 

mbl.is