Á bara eftir að verða betri

Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög stoltur af liðinu,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH-inga, við mbl.is eftir jafnteflið gegn Haukum í Olís-deild karla í handknattleik í Schenker-höllinni að Ásvöllum í kvöld.

„Við byrjuðum leikinn illa en það var frábært hvernig strákarnir unnu sig inn í leikinn og hversu sterkir þeir komu til baka. Við náðum sem betur fer að verjast síðustu sókn Haukanna og ég held að úrslitin hafi verið sanngjörn þegar upp er staðið.

Ég get vel skilið Gunna Magg að hann hafi verið fúll með síðustu sókn sinna manna en ég var að sama skapi ánægður með hvernig menn stóðu vörnina þarna í lokin og ánægður með stigið. Við getum vonandi byggt ofan á þetta. Við erum með marga unga stráka og mikið breytt lið og hjá nokkrum leikmanna var þetta fyrsti Hafnarfjarðarslagurinn,“ sagði Halldór Jóhann.

Spurður út í magnaða frammistöðu Jóhanns Birkis í seinni hálfleik sagði Halldór;

„Hann átti frábæran leik. Jói nýtti sinn styrkleika eins og við erum að fá hann til að gera og hann á bara eftir að verða betri þegar hann kemst í enn betra form,“ sagði Halldór Jóhann en FH-liðið undir hans stjórn hefur ekki tapað fyrir Haukum í Schenker-höllinni síðan árið 2015.

mbl.is