Hóf tímabilið með 19 mörkum

Fjölnir og Grótta fara illa af stað eftir fall.
Fjölnir og Grótta fara illa af stað eftir fall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkir vann 31:24-sigur á Fjölni í 1. umferð Grill 66 deildar kvenna, 1. deild, í handbolta í Fylkisheimilinu í kvöld. Staðan í hálfleik var 15:12, Fylki í vil. Fylkir var mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik og tryggði sér sannfærandi sigur.

Irma Jónsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði 19 mörk fyrir Fylki. Ólöf Ásta Arnþórsdóttir gerði ellefu mörk fyrir Fjölni, sem féll úr deild þeirra bestu á síðustu leiktíð. 

Fram U var sterkari aðilinn á móti Gróttu og vann 25:15-heimasigur. Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði átta mörk fyrir Fram, eins og Eva Kolbrún Kolbeins fyrir Gróttu. Grótta féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og hefur misst sterkustu leikmenn sína, líkt og Fjölnir. 

HK U gerði góða ferð í Hafnarfjörðinn og vann 28:23-sigur á FH. Staðan í hálfleik var 13:12, HK í vil. Gestirnir voru mun sterkari í síðari hálfleik og tryggðu sér verðskuldaðan sigur. Markaskorarar leiksins lágu ekki fyrir er fréttin var skrifuð. 

mbl.is