Vorum viðbjóðslega nærri stiginu

ÍR-ingurinn Þrándur Gíslason Roth.
ÍR-ingurinn Þrándur Gíslason Roth. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum viðbjóðslega nærri því að fá að minnsta kosti eitt stig úr leiknum. Það má segja að við höfum séð fyrir því sjálfir að ná ekki í jafntefli, hið minnsta,“ sagði baráttujaxlinn Þrándur Gíslason Roth, leikmaður ÍR, eftir naumt tap liðsins, 28:27, fyrir Aftureldingu að Varmá í kvöld í annarri umferð Olís-deildar karla í handknattleik.

„Það hefði verið sanngjörn niðurstaða eftir jafnan leik að fá annað stigið og ég taldi það vera innan seilingar þegar við hófum sókn marki undir þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. En sú varð ekki raunin. Lokakaflinn var svolítið lýsandi fyrir okkar leik. Við vorum flottir lengst af leiksins, bæði í vörn og sókn. Það var stígandi í okkar leik en síðan töpuðum við leiknum á nokkrum einföldum atriðum. Það er óþolandi að vera ánægður með spilamennskuna en fara heim án stiga,“ sagði Þrándur sem segir að menn séu engu að síður rólegir í herbúðum ÍR þótt liðið sé án stiga eftir tvo leiki af 22 í deildinni.

„Meðan að spilamennskan fer batnandi og við erum inn í leikjum þá er engin ástæða til örvænta. En við verðum að fara að ná í stig til þess að vera með í deildinni,“ sagði Þrándur sem er að leika sitt annað tímabil með ÍR en hann lék um árabil með Aftureldingu auk þess að vera alinn upp í Mosfellsdal. Hann segir gaman að tuskast í gömlum samherjum.

„Ég er enn þá í handboltanum vegna þess að ég hef gaman af honum og ekki er verra að fá tækifæri til að tuskast í gömlum samherjum,“ sagði Þrándur með bros á vör. „Ég hef fyrir löngu gefið upp alla von um titla en meðan ég get slegist við menn þá held ég eitthvað áfram,“ sagði Þrándur Gíslason Roth, handknattleiksmaður hjá ÍR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert