Naumt tap fyrir Svíum

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði naumlega fyrir sænska landsliðinu, 26:25, í fyrri vináttulandsleik liðanna í Schenker-höllinni á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Íslenska liðið var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:13. Síðari leikur liðanna verður á sama stað á laugardaginn klukkan 16. 

Íslenska landsliðið var síst lakara liðið lengst af leiksins í kvöld við sænska landsliðið sem hafnaði í fjórða sæti á HM í desember í fyrra. Liðin skiptust á að hafa forystu í fyrri hálfleik en góður lokakafli íslenska liðsins færði því forystuna á lokakaflanum.

Svíar byrjuðu síðari hálfleik betur og komust fljótlega yfir. Ekki síst var það að þakka góðri frammistöðu Filippu Idehn í markinu. Leikmenn íslenska liðsins gáfust alls ekki upp þótt á móti blési. Þeir börðust á báðum endum vallarins allt til leiksloka. Litlu mátti muna að íslenska liðinu tækist að jafna á síðustu mínútunni en færi gafst til þess. 

Leikur íslenska landsliðsins í kvöld var einn sá besti sem liðið hefur sýnt um langt skeið og boðar vonandi eitthvað gott fyrir framhaldið. Varnarleikurinn var sérstaklega góður. Leikin var 5/1 vörn með Ester Óskarsdóttur í fremstu víglínu. Ester fór fyrir liðinu og aðrir leikmenn fylgdu með. Markvarslan var góð. 

Sóknarleikurinn var lengst af agaður. Erfiðir kaflar komu en leikmenn unnu sig úr þeim og lögðu aldrei árar í bát þótt við ramman væri reip að draga. Sóknarleikurinn var á köflum mjög hraður og árásum á vörn Svía var stanslaust haldið uppi, ekki síst í síðari hálfleik.

Helena Rut Örvarsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Arna Sif Pálsdóttir og Lovísa Thompson voru markahæstar með fjögur mörk hver.

Ísland 25:26 Svíþjóð opna loka
60. mín. Ísland skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert