Kasumovic hetja KA gegn ÍR

Tarik Kasumovic skoraði ellefu mörk fyrir KA í dag.
Tarik Kasumovic skoraði ellefu mörk fyrir KA í dag. Ljósmynd/KA

Tarik Kasumovic tryggði KA dýrmætt jafntefli gegn ÍR í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Akureyri í dag en hann skoraði jöfnunarmark Akureyringa þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka og lokatölur á Akureyri 25:25.

Akureyringar byrjuðu leikinn betur og komust í 3:0 en ÍR tókst að minnka þann mun í eitt mark eftir fimm mínútna leik. KA náði með fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik en alltaf komu ÍR-ingar til baka og var staðan í hálfleik 12:10, KA í vil.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleik en á 40. Mínútu kom Björgvin Hólmgeirsson ÍR yfir, 16:15, í fyrsta sinn í leiknum. ÍR gekk á lagið eftir þetta og náði þriggja marka forskoti en þá gerðu Akureyringar áhlaup og minnkuðu muninn í eitt mark.

Breiðhyltingar héldu hins vegar sínu striki og komust í 24:20, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Akureyringar gerðu þá mikið áhlaup og þeim tókst að minnka muninn niður í eitt mark þegar mínúta var til leiksloka. Tarik Kasumovic jafnaði svo metin fyrir KA þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka og jafntefli því niðurstaðan á Akureyri.

Tarik Kasumovic var markahæstur í liði KA með 11 mörk og Áki Egilsnes skoraði 6 mörk í liði KA. Hjá ÍR var Sturla Ásgeirsson atkvæðamestur með 8 mörk, þar af fjögur af vítalínunni, og Björgvin Hólmgeirsson kom næstur með sex mörk. KA er komið í sjötta sæti deildarinnar með 5 stig en ÍR fer upp í níunda sætið í 3 stig og er með jafnmörg stig og Grótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert