Dýrmætur sigur ÍR á Fram

Arnar Freyr Guðmundsson fór mikinn í liði ÍR sem fylgdi …
Arnar Freyr Guðmundsson fór mikinn í liði ÍR sem fylgdi eftir góðri frammistöðu gegn Haukum með sigri í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Arnar Freyr Guðmundsson tryggði ÍR eins marks sigur á Fram, 25:24, í Safamýri í kvöld í 8. umferð Olís-deildar karla í handbolta.

Mark Arnars Freys var eitt af níu mörkum hans úr 11 skottilraunum í leiknum, samkvæmt leiklýsingu HB Statz, og var hann markahæstur í leiknum. Pétur Árni Hauksson var næstmarkahæstur ÍR-inga með 5 mörk en Valdimar Sigurðsson skoraði flest mörk Framara eða 6.

ÍR var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 11:9, en Fram komst tveimur mörkum yfir þegar tólf mínútur lifðu leiks, 18:16 og 19:17. ÍR náði svo aftur forystunni en Sigurður Örn Þorsteinsson jafnaði metin í 24:24 þegar skammt var eftir. Það dugði þó Fram skammt eins og fyrr segir.

ÍR komst þar með upp fyrir Fram og er með sex stig, stigi meira en Fram. Grótta, ÍBV og KA eru með sex stig hvert en þau eru öll að spila í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert