„Ég er ekkert brjálæðislega ósáttur“

Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þórs, var svekktur eftir tap kvöldsins.
Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þórs, var svekktur eftir tap kvöldsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jónatan Magnússon, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta, mátti klóra sér hressilega í hausnum eftir framgöngu sinna kvenna í kvöld gegn Haukum í Olís-deildinni. Margt var gott en annað slæmt þegar lið hans tapaði naumlega fyrir sjóðheitum Hafnfirðingum. KA/Þór var undir nánast allan leikinn, mest sex mörkum. Liðið átti svo góðan lokakafla og var ekki langt frá því að ná stigi í 29:27 tapi.

Sæll Jonni. Að mínu mati var þetta langt frá því að vera besti leikur ykkar en þrátt fyrir það þá eruð þið ekki langt frá því að taka stig gegn sjóðheitu liði Haukanna.

„Já ég er sammála því. Þetta var ekki sérstök frammistaða. Mestu munar að við misstum Haukana frá okkur í fyrri hálfleik og þar spilaði inn í að vörnin og markvarslan var ekki eins og við vildum. Sóknarlega vorum við að skora meira en nokkru sinni í vetur, held ég. Samt erum við að gera ótrúlega mikið af alls kyns tæknifeilum í sókninni. Samkvæmt mínum tölum erum við að fá á okkur tíu hraðaupphlaupsmörk. Þegar við stóðum vörnina í seinni hálfleik þá spiluðum við mjög vel. Liðsheildin er góð og við lendum fimm og sex mörkum undir en komumst alltaf aftur inn í leikinn. Við náðum að gera þetta að leik og hefðum mátt taka lausa boltann í blálokin. Hann hefði getað dottið til okkar og það hefði verið frábært að stela einu stigi. Ég er, þrátt fyrir allt, ekkert brjálæðislega ósáttur. Það eru góðir punktar og slæmir. Við förum t.a.m. illa að ráði okkar í yfirtölu. Línumennirnir okkar voru að koma sér í góðar stöður og fá tvær mínútur á varnarmenn Hauka. Það er alltaf þetta ef og hefði. Með því að nýta yfirtöluna betur þá hefði leikurinn hugsanlega farið öðruvísi. Haukar eru hörkulið og með mikið sjálfstraust eftir gott gengi að undanförnu. [Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka] var drullustressaður. Hann má eiga það að hann náði þessum sigri sem hann langaði mikið í.“

Talandi um línumenn. KA/Þór er með frábæra línumenn og Anna Þyrí Halldórsdóttir er heldur betur að stimpla sig inn, rétt orðin 17 ára. Er Valdi [Þorvaldur Þorvaldsson, aðstoðarþjálfari og fyrrverandi línumaður KA og Þórs] að búa til þessa góðu línumenn?

„Já Valdi sér náttúrulega um línumennina. Við erum með þrjá góða línumenn, stundum fjóra. Þetta eru allt ungar stelpur og við höfum úr miklu að velja. Þær hafa allar staðið sig vel en auðvitað er þetta upp og niður. Anna Þyrí er mjög öflug og ég er mjög ánægður með hennar frammistöðu. Við viljum samt ekki beina kastljósinu að einstaklingnum, heldur að liðinu. Við erum með ákveðin gildi og leggjum mikið upp úr því að við erum lið. Það er mikilvægt að það komi fram. Þetta er ekki einn leikmaður, eða tveir. Hér eru allir að berjast fyrir hver annan og liðsheildin er lykilatriði. Næsti leikur er gegn ÍBV í Eyjum á föstudaginn og það verður erfitt að ná stigum þar. Við fengum ekkert í kvöld og reynum aftur á föstudaginn,“ sagði vaðandi Jónatan áður en hann hreinlega rauk í burtu. Það vantar ekkert upp á orðaforðann hjá kappanum og þetta stutta spjall hefði allt eins getað orðið margfalt lengra.

mbl.is