Aron frábær í öruggum sigri

Aron Pálmarsson og liðafélagar hans í Barcelona eru í efsta ...
Aron Pálmarsson og liðafélagar hans í Barcelona eru í efsta sæti A-riðils Meistaradeildarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir Barcelona og átti frábæran leik þegar liðið vann öruggan átta marka sigur gegn stórliði Vardar Skopje í Meistaradeildinni í handknattleik á Spáni í dag en leiknum lauk með 34:26-sigri Barcelona.

Jafnfræði var með liðunum til að byrja með en staðan í hálfleik var 16:15, Barcelona í vil. Barcelona byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og var munurinn á liðunum orðinn sex mörk eftir 35 mínútur. Vardar Skopje tókst ekki að brúa það bil og sigur Barcelona því afar öruggur þegar uppi var staðið.

Þrátt fyrir að Aron hafi haft hægt um sig í markaskorun átti Íslendingurinn frábæran leik og var duglegur að skapa sóknarfæri fyrir liðsfélaga sína. Barcelona er í efsta sæti A-riðils með 14 stig eftir fyrstu átta umferðirnar en Barcelona hefur tveggja stiga forskot á Vive Kielce sem er í öðru sæti A-riðils með 12 stig.

mbl.is