Grétar Ari skellti í lás gegn ÍBV

Adam Haukur Baumruk býr sig undir að skjóta á markið …
Adam Haukur Baumruk býr sig undir að skjóta á markið í leiknum gegn ÍBV í kvöld. mbl.is/Hari

Grétar Ari Guðjónsson, markmaður Hauka, átti sannkallaðan stórleik í Hafnarfirðinum í kvöld og varði 23 skot, þar af eitt vítakast, þegar ÍBV kom í heimsókn í 10. umferð Olísdeildar karla í handknattleik en leiknum lauk með sex marka sigri Hafnfirðinga, 32:26.

Eyjamenn fóru vel af stað og komust snemma í 3:1 en eftir það sneru Haukarnir leiknum sér í vil og þar fór Grétar Ari Guðjónsson, markmaður Hauka, fremstur í flokki. Haukar jöfnuðu leikinn í 3:3 eftir fimm mínútna leik og eftir tíu mínútur var staðan orðin 7:3, Haukum í vil. Haukar komust í 11:7 og áfram hélt Grétar Ari að verja vel í marki Hauka en þá kom Björn Viðar Björnsson inn á í markið hjá Eyjamönnum og hann átti nokkrar góðar vörslur á mikilvægum augnablikum. Eyjamenn jöfnuðu metin í 13:13 þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en þá datt Grétar Ari aftur í stuð og staðan í hálfleik 16:14, Haukum í vil.

Haukar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks en Kristján Örn Kristjánsson var fljótur að svara og virtist allt stefna í hörkuleik. Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var munurinn á liðunum orðinn fjögur mörk. Haukar sigldu hægt og rólega fram úr með Grétar Ara fremstan í flokki en Eyjamenn skoruðu einungis fjögur mörk á fyrstu tuttugu mínútum síðari hálfleiks. Þá fóru Eyjamenn hræðilega með vítaköstin sín en þeir skoruðu úr tveimur vítaskotum af sjö í leiknum. Haukar sigldu þægilegum sigri í hús og lokatölur í Hafnarfirðinum 32:26.

Heimir Óli Heimisson var atkvæðamestur í liði Hauka með átta mörk og Adam Haukur Baumruk skoraði sjö mörk. Þá varði Andri Sigmarsson Scheving þrjú vítaköst í leiknum. Hjá Eyjamönnum var Kristján Örn Kristjánsson markahæstur með sex mörk og Fannar Þór Friðgeirsson skoraði fimm mörk. Haukar eru komnir í efsta sæti deildarinnar í 16 stig en ÍBV er áfram í tíunda sæti deildarinnar með 6 stig eftir fyrstu tíu umferðirnar.

Haukar 32:26 ÍBV opna loka
60. mín. Kristján Örn Kristjánsson (ÍBV) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert