Hef aldrei fyrr mætt Tyrkjum

Helena Rut Örvarsdóttir t.v. og Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskonur í …
Helena Rut Örvarsdóttir t.v. og Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskonur í handknattleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Leikurinn við Tyrki verður spennandi og skemmtilegt verkefni,“ sagði Helena Rut Örvarsdóttir stórskytta íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik spurð um leikinn við Tyrki í kvöld í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Boris Trajkovski-íþróttahöllinni í Skopje og verður fyrsta viðureign íslenska liðsins af þremur á jafnmörgum dögum í undankeppninni. Íslenska landsliðið stefnir á sigur í riðlinum og að tryggja sér þannig sæti í umspilsleikjum um HM-sæti sem háðir verða í vor.

„Ég hef aldrei fyrr leikið á móti tyrkneska landsliðinu en af því sem ég hef séð af upptökum með leikjum þess þá er um að ræða spennandi andstæðing. Hins vegar snýst dæmið fyrst og fremst um hvernig við mætum til leiks.  Við verðum að halda okkur við vinnureglur í varnarleiknum og sýna  þolinmæði í sóknarleiknum en einnig fá góða markvörslu. Gangi þessi atriði eftir er ekki vafi á að við getum gert það gott,“ sagði Helena Rut.

„Mér þykir ástæða til þess að vera bjartsýn. Það hefur verið stígandi í síðustu verkefnum okkar. Við erum orðnar öruggari í okkar leik og hver og einn leikmaður vissari um sitt hlutverk. Vonandi smellur allt saman hjá okkur þegar á hólminn verður komið,“ sagði Helena Rut Örvarsdóttir í samtali við mbl.is.

Mbl.is er með í för landsliðsins í Skopje og verður með þráðbeinar textalýsingar frá íþróttahöllinni af leikjum íslenska landsliðsins í kvöld, á morgun og á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert