Guðjón Valur varð annar

Guðjón Valur fagnar marki með Löwen.
Guðjón Valur fagnar marki með Löwen. Ljósmynd/Rhein-Necar Löwen

Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaður Rhein-Neckar Löwen, hafnaði í öðru sæti í kosningu á leikmanni nóvembermánaðar í þýsku 1. deildinni í handknattleik.

Á vefsíðu þýska handknattleikssambandsins hefur staðið yfir kosning á leikmanni nóvembermánaðar síðustu dagana og nú liggur niðurstaðan í kosningunni fyrir.

Domenico Ebner, markvörður Bietigheim, varð hlutskarpastur í kjörinu. Hann hlaut 38% atkvæðanna, Guðjón Valur varð annar með 32%, Tim Hornke úr Lemgo varð þriðji með 19% og Benjamin Buric, leikmaður Flensburg, varð fjórði með 11%.

Guðjón Valur átti enn einn stórleikinn með Löwen í gær en hann skoraði 9 mörk og var markahæstur sinna manna í sigri gegn Magdeburg.

mbl.is