Rauð spjöld og læti þegar KA marði Ak­ur­eyri

KA vann nauman sigur á Akureyri í kvöld.
KA vann nauman sigur á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fyrsti leikur 12. umferðar Olís-deildar karla í handbolta var leikinn í kvöld á Akureyri. Grannaliðin Akureyri og KA áttust við og eins og búast mátti við var allt lagt í sölurnar.

Liðin eru bæði í neðri hluta deildarinnar og eru að berjast fyrir lífi sínu. Fyrir leik var KA aðeins ofar, með átta stig en Akureyri á botninum með sex stig. Stigin tvö voru því einkar mikilvæg. KA hafði unnið eins marks sigur í fyrri leik liðanna í einum svakalegasta leik ársins.

Fyrri hluta fyrri hálfleiks var jafnt á nánast öllum tölum eða þar til KA-menn tóku góða rispu og byggðu upp sex marka forskot. Þeirra aðalmaður var Færeyingurinn Áki Egilsnes, sem skoraði nánast að vild.

Akureyri var í vandræðum í sókninni og markvarslan var ekki góð. Arnar Þór Fylkisson tók loks skot í marki Akureyrar og hrökk við það í gang. Munurinn hélst þó fimm mörk. Akureyri skoraði úr víti í lok fyrri hálfleiks og minnkaði þá muninn í 18:14.

Mikið vatn átti svo eftir að renna til sjávar áður en úrslitin réðust.

Akureyri elti allan seinni hálfleikinn og virtist nokkrum sinnum ætla að ná KA. Bæði lið klúðruðu svo fjölmörgum sóknum, vítum og upplögðum stöðum á lokasprettinum. Arnar Þór Fylkisson hélt áfram að verja í marki Akureyrar og þegar mest á reið tók Jovan Kukobat upp á því að verja fyrir KA og hélt hann sínum mönnum í hæfilegri fjarlægð.

KA virtist nokkrum sinnum vera búið að gera út um leikinn en Akureyri kom að krafti til baka. Lokasóknir KA voru ekki upp á marga fiska og Akureyri minnkaði muninn í eitt mark, 26:25 þegar lítið var eftir. KA hélt boltanum út leiktímann og gat því fagnað naumum sigri.

Tvö rauð spjöld fóru á loft í leiknum. Sigþór Gunnar Jónsson var búinn að vera inná í tíu sekúndur þegar hann fékk beint rautt spjald og Heimir Örn Árnason fékk sama spjald skömmu síðar vegna þriggja brottvísana.

KA fór upp í 7. sætið með sigrinum en Akureyri er enn á botninum.

Stuðningsmenn KA fagna sætum sigri.
Stuðningsmenn KA fagna sætum sigri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Akureyri 25:26 KA opna loka
60. mín. KA tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert