„Hvað gerðist á Selfossi?“

Arnar Þór Fylkisson, markvörður Akureyrar.
Arnar Þór Fylkisson, markvörður Akureyrar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Arnar Þór Fylkisson, markvörður Akureyrar, var maður leiksins þegar Akureyringar unnu óvæntan sigur á Selfossi í Olísdeild karla í handbolta í dag, 28:34. 

Arnar Þór varði 25/2 skot í leiknum og var heldur betur í gírnum og hann var það einnig þegar mbl.is tók hann tali eftir leik.

„Þetta var eiginlega bara stórkostlegt. Vissulega var þetta óvænt. Við töluðum um það fyrir leik að við værum með eitthvað óvænt og fyrirsagnirnar á morgun yrðu „Hvað gerðist á Selfossi?“

Er það ekki bara fín fyrirsögn?

„Jú, en við vissum líka að við þyrftum að leggja allt í þetta og að við ættum mikið inni. Þetta byggist allt á stemmningunni eins og þú sást. Við hættum ekki að hvetja hver annan, sama hversu lélegt klikkið var eða hversu flott þetta var. Þetta var alltaf sami krafturinn,“ sagði Arnar Þór. Hann segir að það sé mikill munur á Akureyringum í dag, miðað við í upphafi móts.

„Við erum búnir að byggja upp svo geggjaða liðsheild miðað við hvernig þetta var í upphafi tímabilsins. Það eru allir komnir saman núna, þetta er bara eitt besta lið sem ég hef spilað fyrir.“

Varnarleikur Akureyringa var frábær í leiknum og þeir náðu að halda Selfyssingum í 13 mörkum í fyrri hálfleik og byggja upp gott forskot. Frábær vörn og frábær markvarsla helst gjarnan í hendur.

„Við erum með tvo bestu varnarþjálfara í heimi. Við spilum vörn svona tíu sinnum meira en sókn. Og af því að við erum að spila svona góða vörn þá verður sóknin á æfingum líka svo geggjuð. Þetta er svo geggjuð samsetning hjá okkur. Vörnin vildi verja þetta fyrir mig og það gefur mér svo mikinn kraft - ég er svo mikill stemmningskarl. Og það sem strákarnir settu í þetta í vörninni það gaf mér bara allt sem ég gat í dag,“ sagði Arnar og bætti við að sóknarleikurinn hafi líka verið öflugur. 

„Við skorum 34 mörk. Við skorum ekki oft mikið en þessi leikur fer í sögubækurnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert