Þurftum að spila fullkominn leik

Stefán Rúnar Árnason, þjálfari KA, var svekktur eftir tap sinna …
Stefán Rúnar Árnason, þjálfari KA, var svekktur eftir tap sinna manna gegn Haukum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr þessum leik. Við reyndum og lögðum okkur alla fram en Haukarnir voru sterkari en við í dag,“ sagði Stefán Rúnar Árnason, þjálfari KA, í samtali við mbl.is eftir 33:28-tap liðsins gegn Haukum í 13. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í dag.

„Við spiluðum ekki nægilega góða vörn í dag og það vantaði líka upp á markvörsluna og það kann ekki góðri lukku að stýra gegn jafn sterku liði og Haukaliðinu. Við náum að jafna leikinn í upphafi síðari hálfleiks en svo kemur afar slæmur kafli hjá okkur þar sem þeir skora þrjú eða fjögur mörk og það fer með leikinn. Við fengum færi til þess að koma okkur inn í leikinn en nýttum þau ekki og þú þarft að spila fullkominn leik ef þú ætlar þér að vinna lið eins og Hauka.“

Sóknarleikur Akureyringa datt mikið niður í seinni hálfleik og þeim mistókst að koma sér aftur inn í leikinn, eftir að hafa jafnað metin í 19:19, í upphafi síðari hálfleiks.

„Heilt yfir þá fannst mér við spila mjög góðan sóknarleik í dag, þótt hann hafi aðeins dottið niður á köflum, en það bara er ekki nóg gegn einu af bestu liðum deildarinnar. Við vorum að keyra hraðaupphlaupin vel og það er margt jákvætt sem við getum tekið með okkur úr þessum leik,“ sagði Stefán Rúnar Árnason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert