Öruggur sigur gegn Barein

Aron Pálmarsson sækir að marki Bareins í kvöld.
Aron Pálmarsson sækir að marki Bareins í kvöld. mbl.is/Hari

Ísland vann öruggan sigur á Barein 36:24 þegar þjóðirnar mættust í vináttuleik í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld. Liðin undirbúa sig fyrir HM í Þýskalandi og Danmörku sem fram fer í janúar á næsta ári, en þau eru einmitt saman í riðli á mótinu. 

Að loknum fyrri hálfleik var staðan 15:13 fyrir Ísland. Íslendingar stungu af í upphafi síðari hálfleiks og lögðu þá grunninn að öruggum sigri. Leikmenn Barein töpuðu þá boltanum hvað eftir annað og okkar menn nýttu sér það. Lið Barein var án beggja leikstjórnenda sinna. Annar þeirra kom ekki til landsins af persónulegum ástæðum en hinn meiddist í upphitun. Hafði það vafalaust sín áhrif á sóknarleik gestanna. 

Leikurinn var nokkuð dæmigerður vináttuleikur þar sem ýmislegt er prófað og nánast allir leikmenn fengu að spreyta sig. Íslenska liðið skoraði fjöldann allan af mörkum úr hraðaupphlaupum og þar skildi á milli. Liðið datt þó niður inn á milli og frammistaðan var nokkuð kaflaskipt. 

Fjórtán leikmenn skoruðu fyrir Ísland í leiknum.  Hornamennirnir voru atkvæðamestir enda fengu þær mörg dauðafæri úr hraðaupphlaupum og voru skæðir í þeim þætti leiksins. Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur með átta mörk og Stefán Rafn Sigurmannsson gerði sjö. Íslenska liðið sýndi að það getur sótt hratt og nýtt sér mistök andstæðinganna sem lengi hefur verið gott vopn hjá liðinu og verður vonandi áfram. 

Liðin mætast aftur í Laugardalshöllinni á sunnudaginn. 

Ísland 36:24 Barein opna loka
60. mín. Hasan Alfardan (Barein) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert