Erfiður eltingarleikur gegn Noregi

Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon máttu sætta sig við …
Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon máttu sætta sig við tap fyrir Noregi. mbl.is/Hari

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tapaði með sex mörkum fyrir Noregi, 31:25, í fyrsta leik sínum af þremur á alþjóðlega mótinu Gjensidige Cup sem haldið er í Ósló í aðdraganda heimsmeistaramótsins sem hefst í næstu viku. Íslenska liðið elti svo til allan leikinn og réð illa við vel mannað lið Noregs.

Jafnt var á með liðunum fyrsta stundarfjórðunginn eða svo. Ísland komst í 5:3 en jafnt var á tölum allt þar til staðan var 7:7. Þá hrökk Torbjørn Bergerud í gang í marki Norðmanna sem gaf þeim færi á að ná fjögurra marka forskoti í fyrsta sinn, 12:8.

Ágúst Elí Björgvinsson kom þá inn í mark Íslands og á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks náði íslenska liðið að minnka muninn. Ísland skoraði þrjú mörk í röð og breytti stöðunni úr 15:11 í 15:14, en Norðmenn skoruðu síðasta mark hálfleiksins og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik 16:14.

Ísland náði ekki áhlaupi eftir hlé

Ísland minnkaði muninn í eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en Norðmenn voru ekki á því að hleypa liðinu nær en það. Noregur náði fimm marka forskoti í fyrsta sinn eftir rúmar tíu mínútur í síðari hálfleik, 22:17, og hélt íslenska liðinu í hæfilegri fjarlægð. Þegar tíu mínútur voru eftir var staðan enn þægileg fyrir Noreg, 27:23.

Í stað þess að ná áhlaupi síðustu mínúturnar voru það Norðmenn sem gáfu enn frekar í. Þeir skoruðu fimm mörk í röð og náðu átta marka forskoti í fyrsta sinn í leiknum, 31:23. Loks eftir fimm norsk mörk í röð náði Ísland að skora í fyrsta sinn í um átta mínútur en þá var skaðinn skeður. Lokatölur 31:25 fyrir Noreg.

Sander Sagosen fór á kostum hjá norska liðinu og var Íslandi erfiður. Hann skoraði 8 mörk og lagði upp fjölmörg færi fyrir liðsfélaga sína. Torbjørn Bergerud var svo íslenska liðinu afar erfiður og varði 17 skot í markinu.

Hjá Íslandi skoruðu þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson báðir 4 mörk og voru markahæstir. Ágúst Elí Björgvinsson varði 7 skot í markinu eftir að hafa komið inn á 20. mínútu.

Íslenska liðið mæt­ir Bras­il­íu í ann­arri um­ferð á laug­ar­dag­inn og Hollandi í lokaum­ferðinni á sunnu­dag­inn. Liðið kem­ur heim til Íslands strax um kvöldið en fer til München á miðviku­dag­inn þar sem það mæt­ir Króa­tíu í fyrsta leik sín­um á heims­meist­ara­mót­inu á föstu­dag­inn kem­ur, 11. janú­ar.

Noregur 31:25 Ísland opna loka
60. mín. Ýmir Örn Gíslason (Ísland) skoraði mark Af línunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert