Því miður stóðumst við ekki prófið

Leikmenn Hauka og Stjörnunnar heilsast fyrir leikinn í kvöld.
Leikmenn Hauka og Stjörnunnar heilsast fyrir leikinn í kvöld. mbl.is/Hari

„Við áttum erfitt með að fara eftir fyrirmælum og þess vegna vorum við í vandræðum allan tímann,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Hauka í handknattleik, við mbl.is eftir að liðið tapaði fyrir Stjörnunni, 23:22, eftir framlengdan leik í baráttunni um sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar.

„Ég er bara ógeðslega svekktur. Við brennum af of mörgum dauðafærum í þessum leik til þess að eiga skilið að vinna. Við mætum seint og illa í leikinn, lendum 4:0 undir en náum samt að rétt það af. Það var meiri barátta í Stjörnunni og þess vegna vinna þær,“ sagði Elías.

En af hverju gekk liðinu svona illa að byrja leikinn almennilega?

Því miður hefur það verið þannig síðan ég tók við liðinu að þegar við mætum í leiki þar sem er eitthvað undir, þá höndlum við það ekki. Við erum rosalega lengi í gang og það er agaleysi sem gengur ekki í svona leikjum. Ég veit ekki hvort reynslan hjá Stjörnunni hafi unnið þetta fyrir þær, en við alla vega brenndum af vítakasti í lokin og dauðafærum,“ sagði Elías.

Eftir svona dramatískt tap í framlengingu, lét hann vel í sér heyra í klefanum?

„Nei, þetta er ekki staður né stund til að fara að blása. Það eru allir mjög svekktir. Við ætluðum okkur að fara í Höllina en því miður þá stóðumst við ekki prófið,“ sagði Elías Már Halldórsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert