Selfoss í forystu eftir framlengingu

Selfyssingurinn Guðni Ingvarsson í dauðafæri í leiknum gegn Val í …
Selfyssingurinn Guðni Ingvarsson í dauðafæri í leiknum gegn Val í kvöld. mbl.is/Hari

Selfoss er komin í 1:0 í einvígi sínu gegn Val í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta eftir 36:34-heimasigur í framlengdum og gríðarlega skemmtilegum fyrsta leik í kvöld. 

Mikið jafnræði var með liðunum framan af í hröðum og skemmtilegum leik. Staðan var 5:5 eftir níu mínútur. Þá skoruðu Valsmenn tvö mörk í röð og náðu tveggja marka forskoti, 7:5. Valsmenn náðu svo þriggja marka forskoti í fyrsta skipti þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður, 11:8.

Selfyssingar tóku þá leikhlé og jöfnuðu þeir skömmu síðar í 13:13. Í stöðunni 14:14 dró til tíðinda. Valsmenn fengu þá þrjár brottvísanir í sömu sókn Selfyssinga. Eina þeirra fékk Orri Freyr Gíslason og var það hans þriðja brottvísun og fékk hann því rautt spjald.

Í kjölfarið komst Selfoss tveimur mörkum yfir, 17:15. Þegar Valsmenn fengu fullskipað lið á ný jöfnuðu þeir í 17:17, sem var staðan í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var einn sá besti sem undirritaður hefur séð í langan tíma. Gríðarlegur hraði, góður sóknarleikur, mjög mikill hiti og slagsmál. 

Illa gekk hjá liðunum að skora í upphafi seinni hálfleiks og var staðan 20:17, Val í vil eftir rúmar fimm mínútur í seinni hálfleik. Selfoss skoraði þá næstu þrjú mörk og jafnaði í 20:20. Þá svöruðu Valsmenn með næstu fjórum mörkum og var staðan 24:20, Val í vil, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. 

Sem fyrr gáfust Selfyssingar ekki upp og Haukur Þrastarson fór á kostum í seinni hálfleik. Hann minnkaði muninn í 27:26 með sínu tíunda marki þegar átta mínútur voru til leiksloka og jafnaði í 27:27 mínútu síðar með sínu ellefta marki.  

Selfoss komst í kjölfarið yfir í fyrsta skipti í seinni hálfleik, 29:28. Anton Rúnarsson jafnaði síðan í 29:29 og var staðan jöfn þegar þrjár mínútur voru eftir. Anton var svo aftur á ferðinni til að koma Val í 30:29 skömmu síðar. Haukur Þrastarson jafnaði hins vegar metin nokkrum sekúndum fyrir leikslok og tryggði Selfyssingum framlengingu. 

Selfyssingar skoruðu fyrstu þrjú mörk framlengingarinnar, en Valsmenn næstu tvö og var staðan því 33:32, Selfossi í vil, þegar síðari hálfleikur framlengingarinnar fór af stað. Þar voru Selfyssingar sterkari og unnu því góðan sigur. 

Annar leikur liðanna fer fram næstkomandi föstudag, 3. maí. 

Selfoss 36:34 Valur opna loka
70. mín. Sveinn Aron Sveinsson (Valur) skoraði mark 50 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert