„Þetta verður geggjað“

Ásgeir Örn Hallgrímsson sloppinn á milli Eyjamannanna Friðriks Hólm Jónssonar …
Ásgeir Örn Hallgrímsson sloppinn á milli Eyjamannanna Friðriks Hólm Jónssonar og Fannars Friðgeirssonar í fjórðu viðureign Hauka og ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við munum rífa okkur í gang fyrir leikinn á morgun enda erum við ósáttir við frammistöðu okkar í Vestmannaeyjum í fyrrakvöld,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson hinn þrautreyndi handknattleiksmaður Hauka spurður um úrslitaleikinn við ÍBV í undanúrslitum Íslandsmótsins sem fram fer í Schenker-höllinni, heimavelli Hauka, á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 16.30.

Sigurliðið í leiknum á morgun mætir Selfossi í allt að fimm leikja rimmu um Íslandsmeistaratitilinn sem hefst á þriðjudagskvöld.

„Eyjamenn voru mikið grimmari í leiknum í fyrrakvöld. Við vorum skrefinu á eftir frá upphafi. Að þessu sinni verðum við að vera klárir frá fyrstu mínútu. Það virtist vera sem Eyjamenn langaði meira í sigurinn. Það vantaði eitthvað í alla þætti í leik okkar, aðeins meira í sóknina, vörnina, markvörsluna og ákefðina. Svona væri lengi hægt að telja. Stundum er þetta svona í leikjum,“ sagði Ásgeir Örn sem flutti heim á síðasta ári eftir 13 ára atvinnumannaferil með evrópskum félagsliðum.

Haukar urðu deildarmeistarar í vor. Þeir ætla sér ekki að láta þar við sitja. „Við ætlum okkur lengra en í leikinn á morgun. Hjá Haukum stefna menn alltaf á alla þá titla sem hægt er að vinna. Allt annað eru vonbrigði eins og saga handknattleiksdeildarinnar er skýrt dæmi um. Þess utan erum við margir leikmenn liðsins uppaldir hjá félaginu. Við þekkjum þessa sigurhefð og erum aldir upp við hana,“ sagði Ásgeir Örn.

Spurður hvort það sé ekki meiri pressa á leikmönnum Hauka en ÍBV að vinna leikinn á morgun í ljósi þess hvernig keppnistímabilið þróaðist segir Ásgeir Örn að svo kunni að vera. „Kannski þurfum við bara á þessari pressu að halda til þess að spila vel. Kannski hentar það okkur ekkert illa þegar á hólminn verður komið.“

Ásgeir Örn hlakkar til leiksins á morgun. Úrslitaleikir fyrir framan fullt hús af áhorfendum sem láta vel í sér heyra sé nokkuð sem alla langi til að taka þátt í. „Þetta verður geggjað. Það ríkir bara tilhlökkun hjá okkur leikmönnum Hauka að spila úrslitaleik í þeirri stemningu sem mun ríkja á Ásvöllum á morgun,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert