Besti leikurinn á hárréttum tíma

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss fagnaði í kvöld Íslandsmeistaratitli í annað …
Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss fagnaði í kvöld Íslandsmeistaratitli í annað sinn sem þjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er örugglega besti leikur liðsins á þeim tveimur árum sem ég hef þjálfað það. Sá leikur kom á hárréttu augnabliki sem er mjög ánægjulegt,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari nýbakaðra Íslandsmeistara Selfoss í handknattleik karla, í samtali við mbl.is eftir að liðið vann Hauka, 35:25, í fjórðu viðureign liðanna og tók við Íslandsbikarnum að henni lokinni.

„Á móti eins góðu liði og Haukar hafa yfir að ráða þá er það frábært að vinna þrjá leiki af fjórum. Ég þekki alveg hvað býr innandyra hjá Haukum. Ég varð meistari með þeim fyrir fjórum árum. Að við skyldum brjóta þá á bak aftur með þessum leik var frábært. Sölvi var magnaður í markinu hjá okkur. Sverri hef ég aldrei séð í þeim ham sem hann var í að þessu sinni. Hreinlega allt liðið toppaði og það undir þessum kringumstæðum þar sem pressan var eins mikil og raun bar vitni um.  Það var yndislegt að sjá hvernig strákarnir unnu þetta,“ sagði Patrekur og bætir við að það sé yndislegt að kveðja Selfoss-liðið eftir tvö ár með þessum hætti.

„Stemningin hér minnir mig á andrúmsloftið hjá KA þegar ég var þar sem leikmaður fyrir rúmlega 20 árum. Hér eru allir á bak við liðið, jafnt í blíðu sem í striðu. Þess vegna er frábært að geta kvatt fólkið hér með þessum titli. Leikmennirnir eru magnaðir, svo og þjálfarateymið sem unnið hefur með mér. Ég er stoltur að geta tekið þátt í að færa fólkinu þennan stóra titil sem lengi hefur verið beðið eftir,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara Selfoss, í samtali við mbl.is.

mbl.is