„Handboltabakterían til staðar“

Arnar Pétursson annar frá vinstri.
Arnar Pétursson annar frá vinstri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Pétursson hefur ekki leitað sér að félagsliði til að þjálfa vegna anna í vinnu eftir að hann gerði ÍBV að tvöföldum meisturum árið 2018. Þegar HSÍ hafði samband og bauð honum annars konar starf, þ.e.a.s landsliðsþjálfarastarf, þá segist Arnar hins vegar hafa orðið spenntur. 

„Eftir að ég heyrði frá HSÍ þá kveikti þessi hugmynd í einhverju hjá mér. Þegar ég sá hvernig vinna þetta er og að um skorpuvinnu sé að ræða þá var ég strax mjög áhugasamur. Þetta hentar vel með því sem ég geri dags dagslega og er þess vegna mjög spennandi tækifæri,“ sagði Arnar þegar mbl.is ræddi við hann í dag en hann er framkvæmdastjóri í útflutningsfyrirtæki.

Þótt hann hafi náð frábærum árangri með karlalið ÍBV í fyrra, þegar liðið vann tvöfalt, þá var hann ekki að leita sér að félagsliðaþjálfun vegna anna. „Að þjálfa félagslið er hellingur á hverjum degi, margir klukkutímar. Síðasta tímabil mitt hjá ÍBV vorum við til dæmis í Evrópukeppni ofan á annað. Þetta var orðið of mikið með því starfi sem ég er í. En handboltabakterían er til staðar hjá mér og landsliðsþjálfarastarf gerir helling fyrir hana. Ég held að þessi vinnutími sé akkúrat það sem ég þurfti,“ sagði Arnar Pétursson en einnig er rætt við hann í Morgunblaðinu í fyrramálið. 

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, segir viðræðurnar við Arnar hafa gengið hratt fyrir sig. „Axel Stefánsson íhugaði í einhvern tíma hvort hann vildi halda áfram með landsliðið en stutt er síðan hann komst að niðurstöðu um að hann vildi ekki halda áfram. Þá skönnuðum við markaðinn og nafn Arnars kom fljótt upp. Í kringum það er ákveðinn ferskleiki vegna þess að hann hefur ekki komið mikið að þjálfun kvennaliða. Hann var strax jákvæður þegar við höfðum samband við nokkrum dögum síðan,“ sagði Guðmundur en ekki hefur verið ákveðið hver verður Arnari til aðstoðar. 

„Yfirleitt hefur þjálfarinn mest um það að segja. Þetta er það nýtilkomið að við erum ekki byrjaðir á þeirri umræðu og eigum eftir að skoða það,“ sagði Guðmundur, formaður HSÍ, við mbl.is í dag. 

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og kylfingur.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og kylfingur. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert